Heimastjórnin skiptist á ný upp í sjókvíamáli

Tillagan var felld í heimastjórn Seyðisfjarðar.
Tillagan var felld í heimastjórn Seyðisfjarðar. mbl.is/Helgi Bjarnason

Heimastjórn Seyðisfjarðar felldi á dögunum tillögu eins fulltrúa í heimastjórninni um að vekja athygli á að þörf sé á frekara hættumati á ofanflóðahættu í tengslum við sjókvíaeldi í firðinum.

Það var Jón Halldór Guðmundsson, einn þriggja fulltrúa í stjórninni, sem lagði fram tillöguna. Vildi hann að sveitarstjórn Múlaþings myndi vekja athygli Matvælastofnunar (MAST) á umsögn Veðurstofu Íslands þar sem bent er á að þörf sé á frekara hættumati á ofanflóðahættu á Seyðisfirði á því svæði sem laxeldisfyrirtækið Kaldvík hf. hyggst vera með sjókvíeldi.

Fá fordæmi fyrir viðlíka andstöðu heimamanna

Mikil umræða hefur verið vegna fyrirhugaðs sjókvíaeldis í firðinum, en það hefur einnig mætt harðri andstöðu margra heimamanna. Fór hópur íbúa þannig í undirskriftasöfnun gegn eldinu og sendi mikill fjöldi inn athugasemdir vegna frummatsskýrslu um áformin. Þá segir í mati Skipulagsstofnunar að „fá ef nokkur fordæmi eru fyrir viðlíka andstöðu heimamanna við sjókvíaeldi“.

Tillaga Jóns Halldórs var sem fyrr segir felld, en það voru þær Jónína Brynjólfsdóttir, formaður heimastjórnarinnar, og Margrét Guðjónsdóttir, aðalmaður í heimastjórninni, sem lögðust gegn henni.

Það er ekki í fyrsta skipti sem línur í heimastjórninni teiknast þannig upp, en árið 2023 felldu þær Jónína og Margrét einnig tillögu Jóns þar sem hann lagðist gegn eldinu.

Skriða féll á athafnasvæðið fyrir nokkrum árum

Jón furðar sig á því að tillagan hafi verið felld. Bendir hann á að fyrir nokkrum árum hafi skriður fallið á atvinnusvæði á Seyðisfirði og að ekki sé leyfilegt að hefja nýja atvinnustarfsemi þar.

„Þess vegna kemur það mér mjög á óvart að félagar mínir í heimastjórn sem eiga að standa vörð um byggðina skyldu ekki taka undir tillöguna með mér,“ segir Jón í samtali við mbl.is. 

Ekki hlutverk sveitarfélagsins

Hins vegar bendir Jónína á að það sé ekki hlutverk sveitarfélagsins að benda MAST á eitthvað sem Veðurstofan hafi sent þeim erindi um auk þess sem að sveitarfélagið hafi ekki skipulagsvald á hafi og geti því ekki tekið afstöðu til umsagnarinnar. 

„Það er mjög mikilvægt að Matvælastofnun taki mið af þessum athugasemdum. Það kemur svolítið spánskt fyrir sjónir ef sveitarfélagið er að fara taka afstöðu með einhverjum athugasemdum einhverra einstakra aðila eða stofnanna hvað varðar athugasemdafrest einhverra stofnana ríkisins. Það er hlutverk Matvælastofnunar að skoða þetta, ekki sveitarfélagsins. Sveitarfélagið hefur ekkert með leyfisveitingaferli fiskeldis að gera.“ 

Þörf á frekara hættumati

Líkt og fyrr segir var umrædd umsögn Veðurstofunnar send á MAST og miðast við frummat sem unnið var á snjóflóðahættu í Sörlastaðavík, Skálanesbót og Selstaðavík í október 2021, að beiðni Verkís. Matið miðaðist við innsend gögn um staðsetningu sjókvíanna innan nýtingareita en ekki nýtingareitanna í heild sinni. 

Í frummati Veðurstofunnar kom fram að ef litið er á kvíarnar sem atvinnusvæði þurfi þær að vera fyrir neðan B-línu. Kvíarnar í Sörlastaðavík og Skálanesbót uppfylltu það skilyrði en ekki kvíarnar í Selstaðavík. 

Í október 2023 vann Veðurstofan staðbundið hættumat í Selstaðavík vegna fyrirhugaðra sjókvía að beiðni Kaldvíkur. Miðaðist matið við innsend gögn um staðsetninguna en ekki sjókvíarnar í heild sinni. Var niðurstaða hættumatsins sú að sjókvíarnar væru fyrir neðan B-línu og stæðust því ofanflóðahættumat fyrir atvinnusvæði. 

Bendir Veðurstofan þó á að hvorki í frummatinu fyrir svæðin öll né í staðbundna matinu fyrir Selstaðavík hafi ofanflóðahætta á nýtingarreitnum í heild sinni verið metin. 

„Veðurstofa Íslands telur mikilvægt að í rekstrarleyfi séu skilyrði um að sjókvíeldisstöðvar séu fyrir utan B-línu ef litið er á sjókvíarnar sem atvinnusvæði. Því telur Veðurstofan rétt að hættumat verði endurskoðað fyrir sjókvíarnar í Selstaðavík og Sörlastaðavík ef vikið verður frá staðsetningu sjókvía eins og þær voru í innsendum gögnum Veðurstofunnar og hefur tilkynnt Kaldvík hf. um það,“ segir í umsögn Veðurstofunnar. 

Segir þar jafnframt að hættumat Veðurstofunnar sé ekki mat á mögulegri hættu á slysasleppingum vegna ofanflóða eins og krafa er um í skipulagsákvæði SN2, Selstaðavík í Standsvæðaskipulagi Austfjarða en samkvæmt því þarf að liggja fyrir nánara mat á hættu á ofanflóðum og þannig mögulegri hættu á slysasleppingum vegna ofanflóða. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert