Geðlæknir á Landspítala metur það svo að Alfreð Erling Þórðarson hafi verið í geðrofi þegar hann ræddi við hann í kjölfar handtöku. Þá hafi hann verið fullur af ranghugmyndum og varla heil brú í því sem hann sagði.
Guðrún Dóra Bjarnadóttir á geðdeild Landspítala gaf skýrslu við aðalmeðferð í máli gegn Alfreð í dag. Hann er ákærður fyrir að hafa orðið hjónum að bana í Neskaupstað 21. ágúst í fyrra.
Alfreð tók bíl hjónanna í Neskaupstað og keyrði til Reykjavíkur á honum, hvar hann var handtekinn. Að kvöldi 22. ágúst ræddi Guðrún Dóra við hann.
Við skýrslutöku í dag sagði hún að erfitt væri að tala við hann. Hann væri greinilega með miklar ranghugmyndir og hafi rætt um guð, Jesú, djöfla og vísindamenn. Hún sagði það hafa verið erfitt fyrir hann að tjá sig í heilum setningum.
Sagði hún Alfreð hafa verið skítugan og síglottandi. Hann hafði brosað á óviðeigandi stöðum í samtalinu og þegar ekki var tilefni til. Hún sagði hann hafa verið óviðeigandi í kontakti. Spurð nánar út í af hverju hún telji að Alfreð hafi glott sagði Guðrún að hún hafi túlkað það svo að það væri tengt hans innri hugarheimi, hann hafi glott yfir einhverju sem hafi verið í gangi í höfðinu á honum.
Alfreð svaraði illa spurningum hennar og gaf lítið upp þegar hann var spurður út í þann verknað sem hann er sakaður um að hafa framkvæmt. Hann hafi hins vegar gefið ýmislegt í skyn þó að hann hafi ekki kannast við að hafa myrt þau.
Hún sagði hann ekki hafa verið sýnilega lyfjaðan, hvorki á örvandi né sljóvgandi lyfjum.
Er það hennar mat að hann hafi verið í geðrofi og hugsanatruflaður.