Trjáfellingar í Öskjuhlíð hófust í morgun. Ástæðan er vegna lokunar austur-vestur flugbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli þar sem trén ógna orðið flugöryggi. Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair sagði í viðtali við Morgunblaðið í dag lokun flugbrautarinnar væri óásættanleg fyrir þjóðina.
Í sama streng tók Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar og umhverfisráðherra, í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra í gærkvöldi, þar sem hann lagði ríka áherslu á að flugbrautin yrði opnuð.
Að þessu sinni verða felld 40-50 tré sem skaga hæst upp úr hlíðinni. Ljóst er að þetta er ekki fullnægjandi aðgerð þar sem til stendur að fella að minnsta kosti 1.400 tré og áætlaður kostnaður vegna þess er talinn hlaupa á hundruð milljóna króna, samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg.
Bjarki Jónsson, framkvæmdastjóri Skógarafurða ehf. á Ytri-Víðivöllum 2 í Fljótsdal, furðar sig á því verði sem áætlað er við fellingu trjánna og segist ekki skilja hvers vegna ISAVIA og Reykjavíkurborg ráðfæri sig ekki við atvinnumenn í skógarhöggi.
Morgunblaðið hefur ekki undir höndum upplýsingar um áætlaðan kostnað við fellingu þeirra fimmtíu trjáa sem nú hefur verið ráðist í.