Sigurði Inga Jóhannssyni, formanni Framsóknarflokksins, var mikið niðri fyrir þegar hann mætti í ræðustól við upphaf þingfundar nú rétt í þessu. Gagnrýndi hann harðlega orð Jóhanns Páls Jóhannssonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og þingmanns Samfylkingarinnar, frá í gær.
Tóku aðrir þingmenn í minnihluta undir gagnrýni Sigurðar Inga og sögðu óforsvaranlegt að Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra hefði breytt fluttri stefnuræðu sinni miðað við þá ræðu sem send hafði verið þingmönnum tveimur dögum fyrr.
Sagði Jóhann í umræðum í gær um stefnuræðu Kristrúnar að Sigurður Ingi væri að ljúga að þingheimi þegar hann sagði Kristrúnu ekki hafa ávarpað kennara og verkföll þeirra í ræðu sinni. Jafnframt sakaði Jóhann Sigurð um að hafa í störfum sínum í ríkisstjórn í sjö ár ekki hafa komið einum einustu virkjanaframkvæmdum yfir 10 megavöttum af stað né að koma nýjum jarðgöngum af stað.
„Og formaður Framsóknarflokksins, háttvirtur þingmaður, sem kom ekki einum einustu jarðgöngum af stað á sjö árum, og sat í ríkisstjórn sem kom ekki einum einustu virkjanaframkvæmdum yfir 10 megavött af stað á sjö árum, hann sakar núna nýja ríkisstjórn um and-landsbyggðarstefnu.
Er það nú! Og reyndar beit hann höfuðið af skömminni með því að ljúga því blákalt að þingheimi að hæstvirtur forsætisráðherra hefði ekki ávarpað kennara í ræðu sinni. Hefði ekki vikið að menntamálum eða ávarpað kennara þarna úti, sem hún gerði svo sannarlega. Það er lágt risið á stjórnarandstöðunni hér í kvöld,“ sagði Jóhann Páll í gær.
Sigurði Inga var ekki skemmt yfir þessum orðum Jóhanns. Sagðist hann hafa vísað sérstaklega í útsenda ræðu Kristrúnar þegar hann vitnaði til þess að ekki hafi verið fjallað um verkföll kennara.
Þá sagði Sigurður Ingi jafnframt að Dýrafjarðargöng hefðu verið opnuð árið 2020 og að hann hafi þá verið ráðherra og klárað það mál. Jafnframt vísaði Sigurður Ingi til þess að á þessum tíma sem hann var í ríkisstjórninni hefði Reykjanesvirkjun opnað 30 mW virkjun og að opna ætti í haust aðra 55 mW virkjun á Suðurnesjum.
„Ég fer fram á það, frú forseti, að hæstv. ráðherra gangist við því að hafa borið mig röngum sökum í gær og sakað mig um lygi þegar ég var ekki að ljúga,“ sagði Sigurður Ingi.
Samflokkskona Sigurðar Inga í Framsóknarflokknum, Ingibjörg Isaksen, kom næst á eftir honum í pontu og lýsti vonbrigðum yfir því að Jóhann Páll hefði sakað Sigurð Inga um lygar. Sagði hún gagnrýni Sigurðar Inga byggjast á því að Kristrún hafi breytt ræðu sinni frá því sem hafði verið sent út.
„Við fengum ræðuna afhenda lögum samkvæmt tveimur sólarhringum fyrir flutning. Og þegar gerðar eru breytingar þá er afar mikilvægt líka að bera virðingu fyrir þingmönnum að okkur sé tilkynnt um slíkar breytingar,“ sagði Ingibjörg og bætti við: „Mér þykir þetta miður og ekki gott upphaf á nýju kjörtímabili.“
Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kom næst í pontu og spurði hvort meirihlutanum væri „algerlega fyrirmunað að bera virðingu fyrir einni einustu reglu“ sem væri á Alþingi. Sagði hún það að breyta fluttri stefnuræðu frá útsendri ræðu vera brot á þingskapalögum og sagði hún ástæðu fyrir því.
„Hún er m.a. sú að það ógeðfellda atriði sem gerðist hér í gær að hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson er leiddur í gildru og svo er öskrað á hann af samflokksmanni þess sem hannaði gildruna, að hafa stigið ofan í hana. Þetta átti forseti að koma í veg fyrir,“ sagði Hildur áður en hún vísaði orðum sínum beint að Þórunni Sveinbjarnardóttur, forseta þingsins og þingmanni Samfylkingarinnar: „Ég vona að ég þurfi ekki að minna á að það er hlutverk forseta að vera forseti alls þingsins, ekki bara Samfylkingarinnar.“