„Gleðin var við stýrið alla ferðina“

Vígslu síðasta rampsins var fagnað fyrir framan Aðalbyggingu Háskóla Íslands …
Vígslu síðasta rampsins var fagnað fyrir framan Aðalbyggingu Háskóla Íslands í dag, um leið og efnt var til uppskeruhátíðar í Hátíðasal skólans vegna tímamótanna. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Nú hafa 1.756 ramp­ar verið sett­ir upp við hinar ýmsu bygg­ing­ar á veg­um verk­efn­is­ins Römp­um upp Ísland. Vígslu síðasta ramps­ins var fagnað fyr­ir fram­an Aðal­bygg­ingu Há­skóla Íslands í dag, um leið og efnt var til upp­skeru­hátíðar í Hátíðasal skól­ans vegna tíma­mót­anna.

Mark­mið verk­efn­is­ins var að bæta aðgengi hreyfi­hamlaðra að bygg­ing­um með því að setja upp 1.000 rampa – sem síðan var aukið í 1.500. Heild­ar­fjöldi rampa fór því langt fram úr þeim áætl­un­um.

Verk­efnið hef­ur verið unnið á met­hraða frá því að það hófst haustið 2021 og er því nú lokið, ári á und­an áætl­un.

„Gleðin skilaði okk­ur miklu lengra en bjart­sýn­ustu spár“

Þetta mikla átak hófst sem til­rauna­verk­efni und­ir yf­ir­skrift­inni Römp­um upp Reykja­vík árið 2021 en í því fólst að byggja 100 rampa í miðborg­inni. Þegar þeir voru full­bún­ir á aðeins átta mánuðum varð ljóst að mögu­legt væri að taka verk­efnið lengra.

Árið 2022 var því ákveðið að byggja 1.000 rampa um allt land á fjór­um árum. Var þeirri áætl­un breytt í 1.500 rampa sama ár og svo var haldið áfram vegna brýnn­ar þarfar og nú eru ramp­arn­ir orðnir 1.756, ári á und­an áætl­un.

Verk­efnið hef­ur haft já­kvæð áhrif á lífs­gæði margra. Með því hef­ur verið mark­visst unnið að því að gera bygg­ing­ar aðgengi­legri fyr­ir alla. Fram að þessu hafa flest­ir ramp­anna verið byggðir við bygg­ing­ar einkaaðila en síðustu áfang­ar verk­efn­is­ins hafa verið í sam­starfi við op­in­bera aðila.

„Með því að vinna sam­an með ótal aðilum, alls staðar að úr sam­fé­lag­inu, byggðum við 1.756 rampa. Það eru 1.756 staðir sem fólk sem not­ar hjóla­stól get­ur núna farið að borða, læra, hlæja, versla, kyss­ast, lifa. Gleðin var við stýrið alla ferðina og gleðin skilaði okk­ur miklu lengra en bjart­sýn­ustu spár. Takk fyr­ir okk­ur,“ sagði Har­ald­ur Ingi Þor­leifs­son, stofn­andi verk­efn­is­ins þegar hann rakti sögu þess og áhrif í HÍ í dag.

Seg­ir aðgeng­is­mál áhrifa­mesta sam­fé­lags­lega jöfn­un­ar­tækið

Viðburður­inn hófst með vígslu síðasta og glæsi­leg­asta ramps­ins við Aðal­bygg­ingu Há­skóla Íslands. Tók þá við dag­skrá í Hátíðasal HÍ hvar stuðningsaðilar og gest­ir komu sam­an og fögnuðu þess­um merka áfanga.

Á hátíðinni flutti fjöldi fólks sem komið hef­ur að verk­efn­inu með ein­um eða öðrum hætti ávörp, Guðni Th. Jó­hann­es­son, fyrr­ver­andi for­seti Íslands, Eyj­ólf­ur Ármanns­son sam­göngu- og sveita­stjórn­aráðherra, Katrín Jak­obs­dótt­ir, fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráðherra, Dag­ur B. Eggerts­son, alþing­ismaður og fyrr­ver­andi borg­ar­stjóri í Reykja­vík, Jón Atli Bene­dikts­son há­skóla­rektor, Bryn­dís Thors grunn­skóla­nemi og Har­ald­ur Ingi Þor­leifs­son, stofn­andi verk­efn­is­ins og aðal­bak­hjarl.

Með tón­list­atriði fóru KK, börn á leik­skól­an­um Bakka­borg og fé­lag­ar Lúðrasveit­ar Reykja­vík­ur.

„Aðgeng­is­mál eru grund­vall­ar­mál í há­skóla­starf­inu því jafnt aðgengi að há­skóla­mennt­un fel­ur jafn­framt í sér jafnt aðgengi að tæki­fær­um sam­fé­lags og at­vinnu­lífs. Þannig eru aðgeng­is­mál í skóla­starfi eitt­hvert áhrifa­mesta sam­fé­lags­lega jöfn­un­ar­tæki sem völ er á. Mér skilst að á há­skóla­svæðinu einu hafi verið gerðir heil­ir 210 ramp­ar í þessu átaki, Römp­um upp Ísland. Það mun­ar um minna,“ sagði Jón Atli Bene­dikts­son, rektor Há­skóla Íslands.

Halda áfram að stuðla að bættu aðgengi

Ramp­ur­inn sem var vígður í dag við Aðal­bygg­ingu HÍ er sá stærsti en á vefsíðunni ramp­ur.is er að finna upp­lýs­ing­ar um alla rampa sem hafa verið reist­ir og annað sem rampa­gerðinni viðkem­ur.

Þrátt fyr­ir að fram­kvæmd­um sé nú lokið held­ur hóp­ur­inn sem stend­ur að verk­efn­inu áfram að sinna sér­verk­efn­um sem stuðla að bættu aðgengi, m.a. að innviðum í Lága­fells­laug í sam­vinnu við Mos­fells­bæ og að veit­inga­stöðum við Geirs­götu í sam­vinnu við Reykja­vík­ur­borg.

Þetta brýna verk­efni hefði ekki orðið að veru­leika án stuðnings fjölda fyr­ir­tækja, stofn­ana og ein­stak­linga sem hafa lagt hönd á plóg. Meðal þeirra sem hafa stutt verk­efnið eru: Jöfn­un­ar­sjóður sveit­ar­fé­laga, Har­ald­ur Þor­leifs­son, Össur, Deloitte, Brand­en­burg, Aton, Lex lög­manns­stofa, BM Vallá, Icelanda­ir, Ork­an, ÞG Verk, Sjálfs­björg, ÖBÍ, Reykja­vík­ur­borg og fjöl­mag­ir aðrir eins og sjá má á ramp­ur.is.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert