Kartöfluuppskera síðasta árs nam 5.514 tonnum og hefur ekki verið minni í rúma þrjá áratugi, eða frá árinu 1993.
Þá var heildaruppskera korns í landinu á síðasta ári 5.100 tonn. Er það minnsta uppskera frá árinu 2018.
Þetta kemur fram í tilkynningu Hagstofunnar um landbúnað.
Uppskera síðasta árs en minni í nánast öllum flokkum ef borið er saman við uppskeru ársins 2023. Undantekningarnar eru tómatar, rauðkál og paprika.
Salat er að mestu leyti framleitt í ylrækt og nam heildaruppskera þess 553 tonnum sem er 6% samdráttur frá árinu 2023. Þrátt fyrir það var þetta þriðja mesta salatuppskera sem mælst hefur.
Þá var gulrótauppskeran 481 tonn sem er minnsta uppskera í ellefu ár. Var hún 53% minni en árið 2023.