Vísindamenn Veðurstofunnar bíða enn eftir því að sjá forboða eldgoss á mælum sínum en skjálftavirkni hefur aukist síðustu daga sem bendir til þess að þrýstingur á gosstöðvunum sé að aukast.
Samt hefur skjálftavirkni við Sundhnúkagígaröðina verið afar lítil í dag. Aðeins einn skjálfti hefur mælst við kvikuganginn síðustu rúmu tólf tíma og var sá fremur lítill – mældist 1,3 að stærð um kl. 8.37, einum kílómetra norðaustur af Sundhnúk.
Skjálftarnir eru því færri í dag heldur vaninn hefur verið síðustu daga en Kristín Elísa Guðmundsdóttir náttúruvársérfræðingur segir að lítið sé hægt að lesa úr dagamismuninum.
„Það er svolítið erfitt að túlka einhverja örfáa daga,“ segir Kristín Elísa við mbl.is en Veðurstofan hefur gefið út að skjálftavirkni hafi aukist síðustu daga.
Tæplega 40 milljón rúmmetrar af kviku eru undir Sundhnúkagígaröðinni og kvikumagn hefur því aldrei verið meira frá því að goshrinan hófst í desember 2023. Gert er ráð fyrir afar skömmum fyrirvara á undan næsta gosi. Síðast var fyrirvarinn ekki nema um hálftími.
Og hver er þessi fyrirvari?
Skýrustu merki um að gos sé að hefjast á Sundhnúkagígaröðinni hafa verið aukin skjálftavirkni í kvikuganginum samhliða þrýstingsbreytingum í borholum HS Orku í Svartsengi, sem benda til þess að kvika sé á hreyfingu í jörðu niðri.
Mælar Veðurstofunnar sýna hvorugt að svo stöddu, þannig að við getum andað léttar – í bili.
„Það er bara allt rólegt akkúrat núna en það getur breyst mjög hratt,“ segir Kristín.
Í tilkynningu sem Veðurstofa birti í dag segir að óbreytt hættumat sé í gildi til morgundags, 18. mars.
Líklegasta sviðsmyndin að þetta kvikusöfnunartímabil endi með kvikuhlaupi og eldgosi sem kæmi fyrst upp á svæðinu milli Sundhnúks og Stóra-Skógfells.
Jafnframt áréttar stofnunin að engar breytingar hafa orðið á staðsetningu jarðskjálftavirkni á Sundhnúkagígaröðinni miðað við aðdraganda síðustu eldgosa, en mælar stofnunarinnar sýndu skakka mynd af skjálftasvæðum síðustu daga. Það hefur nú verið leiðrétt.
Hér getur þú fylgst með beinu streymi af Sundhnúkagígaröðinni.