Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk inn á borð til sín mál sem upp kom þegar drengur á fimmtánda aldursári skaut flugeld í konu sem var í verslunarferð í Mjódd í Breiðholti.
Konunni var brugðið og með áverka á fæti eftir flugeldinn. Að sögn Kristmundar Stefáns Einarssonar, aðalvarðstjóra hjá lögreglunni í Kópavogi, sem sinnir einnig verkefnum í Breiðholti, kom málið upp í janúar.
Segir hann lögreglu hafa komið á vettvang en engir eftirmálar hafi orðið fyrir drenginn sem bar ábyrgð á flugeldaskotinu vegna aldurs hans.
Að sögn Kristmundar kom atvikið upp nærri útsölumarkaði í Mjódd. „Málið var unnið með barnamálayfirvöldum og forráðamanni barnsins,“ segir Kristmundur.
Í frásögn konunnar á Vísi segir að flugeldurinn hafi farið í buxur hennar sem hafi bráðnað og hafi hún kennt sér meins í kjölfarið. Eins segir hún að foreldrarnir hafi gert lítið úr atvikinu.