Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, segir að hjálpa eigi þeim 70 þúsund nýbúum, sem eiga íslensku ekki sem fyrsta mál, að læra tungumálið.
Við eigum ekki að gera kröfu um það og aldrei um að það kunni hana frá fyrsta degi.
Þetta kom fram í svari Loga við fyrirspurn Snorra Mássonar, þingmanns Miðflokksins, sem lýsti áhyggjum sínum á stöðu íslenskunnar í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.
Spurði Snorri ráðherra hvort það væri eðlilegt skref að lögfesta stöðu ensku og pólsku sem opinberra mála í landinu?
Tilefnið var ræða Loga í umræðum um bókmenntastefnu þar sem ráðherrann sagði að þar sem fleiri en áður séu hér á landi sem tali ekki íslensku sem fyrsta mál þurfi að mæta þeim veruleika af skilningi og umburðarlyndi og að við þyrftum að búa okkur undir að þanni muni veröldin breytast.
Spurði Snorri þá, úr því að raunveruleikinn í samfélaginu sé á þá leið, hvort Logi telji eðlilegt að við lögfestum stöðu ensku og pólsku í landinu sem opinberra mála, fyrst við séum að mæta stöðunni af skilningi og umburðarlyndi?
„Auðvitað ekki,“ sagði Logi. Sagði hann alla áherslu verða lagða á það að kenna öllum íslensku sem hingað komi og vilji búa og auðvitað þurfi ekki að lögfesta önnur tungumál en íslensku og táknmál á íslensku eins og sé í dag.
Snorri benti þá á að bæði enska og pólska væri notuð til hliðar við íslenskuna af Stjórnarráðinu, af hálfu skólayfirvalda, í ríkismiðlinum og víða annars staðar hjá hinu opinbera.
Spurði hann þá hvort ráðherra væri tilbúinn að beina því til stofnana samfélagsins að forðast alla notkun útlensku ef ekki ætti að lögfesta erlend tungumál.
Logi svaraði afdráttarlaust neitandi. Hann sagðist telja í ljósi virðingar, kurteisi, sanngirni og skilningi sem við ættum að sýna ættum við að hvetja fjölmiðla og opinber fyrirtæki til að miðla upplýsingum þannig að sem flestir íbúar landsins geti nýtt sér þjónustu og jafnvel lýðræðislegan rétt sinn í sveitarstjórnarkosningum og annað.
Ítrekaði hann að við værum ekki komin á það stig að festa notkun erlendra tungumála í lög. Sagði hann að nota bæri heilbrigða skynsemi. Sagðist hann telja að það að miðla texta á pólsku og ensku geti auðveldað inngildingu í samfélaginu.