Kynna breytingar á stuðningi við Grindvíkinga

Horft yfir Grindavík.
Horft yfir Grindavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rík­is­stjórn­in ákvað í dag að fram­lengja og breyta aðgerðum til að styðja við Grind­vík­inga og at­vinnu­rek­end­ur í bæn­um vegna jarðhrær­inga á Reykja­nesskaga. 

Enn er stefnt að því að byggja Grinda­vík upp að nýju ef nátt­úr­an leyf­ir og það verður talið ör­uggt.

Breyt­ing­arn­ar fela m.a. í sér að lög um sérstæk­an húss­næðisstuðning, sem falla úr gildi í lok mánaðar, verða ekki fram­lengd. Þess í stað verður stutt sér­stak­lega við tekju- og eignam­inni heim­ili til ára­móta á meðan leitað verður var­an­legri lausna á hús­næðis­vanda þeirra.

Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu á vef Stjórn­ar­ráðsins.

„Við vilj­um gefa Grind­vík­ing­um skýr svör um fram­hald stuðningsaðgerða til að eyða óvissu að því marki sem það er hægt,“ er haft eft­ir Kristrúnu Frosta­dótt­ur for­sæt­is­ráðherra í til­kynn­ingu Stjórn­ar­ráðsins.

Kristrún átti í gær fund með bæj­ar­stjóra Grinda­vík­ur og for­seta bæj­ar­stjórn­ar sem og þing­mönn­um Suður­kjör­dæm­is, þar sem ákv­arðanir um næstu skref voru kynnt­ar.

Aðgerðirn­ar sem kynnt­ar eru í til­kynn­ing­unni eru eft­ir­far­andi:

Tekju- og eignam­inni fjöl­skyld­ur fá áfram stuðning

  • Lög um sér­tæk­an hús­næðisstuðning vegna nátt­úru­ham­fara í Grinda­vík­ur­bæ (nr. 94/​2023) falla úr gildi 31. mars næst­kom­andi og verða ekki fram­lengd. Þess í stað verður stutt sér­stak­lega við tekju- og eignam­inni heim­ili til ára­móta á meðan leitað verður var­an­legri lausna á hús­næðis­vanda þeirra.
  • Fram­kvæmd úrræðis­ins verður í hönd­um þjón­ustu­teym­is Grinda­vík­ur­nefnd­ar. Aðrir geta sótt um al­menn­ar hús­næðis­bæt­ur eða sér­stak­an hús­næðisstuðning sveit­ar­fé­laga.

Fram­leng­ing á fresti til að óska eft­ir upp­kaup­um á íbúðar­hús­næði

  • Frest­ur til að óska eft­ir upp­kaup­um á íbúðar­hús­næði í gegn­um Þór­kötlu verður fram­lengd­ur um þrjá mánuði frá 31. mars. Að því loknu verður frest­ur­inn ekki fram­lengd­ur á ný.

Stuðningslán fram­lengd en ekki rekstr­arstuðning­ur

  • Stuðningslán til fyr­ir­tækja verða fram­lengd um eitt ár, til 1. júní 2026, til að fyr­ir­tæki geti byggt sig aft­ur upp í Grinda­vík eða flutt rekst­ur­inn ef þess er þörf. Rekstr­arstuðning­ur við rekstr­araðila verður hins veg­ar ekki fram­lengd­ur og fell­ur því úr gildi 31. mars. Í staðinn verður horft til þess að nýta al­menn­ari úrræði um op­in­ber­an stuðning við at­vinnu­líf gegn­um Sókn­aráætl­un Suður­nesja.
  • Sókn­aráætlan­ir lands­hluta hafa í gegn­um tíðina fengið það hlut­verk að styðja við at­vinnu­líf á ein­stök­um svæðum í tengsl­um við áföll á borð við snjóflóð eða skriðuföll og í tengsl­um við heims­far­ald­ur COVID-19. Gerður verður viðauka­samn­ing­ur við Sókn­aráætl­un Suður­nesja um stuðning við lít­il og meðal­stór fyr­ir­tæki í Grinda­vík.

Ekki ráðist í upp­kaup á at­vinnu­hús­næði í Grinda­vík

  • Stjórn­völd munu ekki ráðast í upp­kaup á at­vinnu­hús­næði í Grinda­vík. Sjón­um stjórn­valda verður þess í stað beint að því að greina hvort per­sónu­leg­ar ábyrgðir vegna at­vinnu­hús­næðis eða at­vinnu­rekst­urs kalli á ráðstaf­an­ir til að forða gjaldþrot­um ein­stak­linga. Þörf fyr­ir slík úrræði verður könnuð með milli­göngu umboðsmanns skuld­ara.

Breyt­ing­ar á Grinda­vík­ur­nefnd en þjón­ustu­teymið starfar áfram

  • For­ræði á Fram­kvæmda­nefnd um mál­efni Grinda­vík­ur (Grinda­vík­ur­nefnd) hef­ur verið flutt frá innviðaráðuneyti til for­sæt­is­ráðuneyt­is með for­seta­úrsk­urði sem tók gildi 15. mars. Breyt­ing verður gerð á skip­an nefnd­ar­inn­ar og um­fangi starf­sem­inn­ar um næstu mánaðar­mót. Stjórn­skip­an verður ein­földuð og nefnd­ar­mönn­um í fullu starfi fækkað.
  • Þjón­ustu­teymi Grinda­vík­ur­nefnd­ar hef­ur gegnt lyk­il­hlut­verki í stuðningi við Grind­vík­inga síðustu mánuði. Teymið hef­ur meðal ann­ars sinnt and­leg­um og fé­lags­leg­um stuðningi, sem mik­il­vægt er að hlúa að áfram. Fjár­magn verður tryggt fyr­ir áfram­hald­andi starf­semi teym­is­ins.

Niður­stöður íbúa­könn­un­ar

  • Dag­ana 20. fe­brú­ar til 2. mars sl. gerði Maskína könn­un fyr­ir for­sæt­is­ráðuneytið meðal þeirra sem bú­sett­ir voru í Grinda­vík við rým­ingu 10. nóv­em­ber 2023. Mark­miðið var að afla upp­lýs­inga m.a. um af­drif, líðan og hug til að flytja aft­ur til Grinda­vík­ur ef óhætt verður talið að búa þar. Í könn­un­inni birt­ist í fyrsta sinn mæl­ing á hug Grind­vík­inga til að snúa aft­ur til bæj­ar­ins verði það talið ör­uggt. Rúm­ur þriðjung­ur hef­ur ein­hvern hug á að snúa aft­ur, nærri því jafn­marg­ir segj­ast ekki vita það og um fjórðung­ur hef­ur eng­in áform þar um. Þá benda niður­stöður könn­un­ar­inn­ar jafn­framt til þess að úrræði stjórn­valda til að tryggja hús­næðis­ör­yggi og af­komu fólks hafi skilað til­ætluðum ár­angri. Hins veg­ar þurfi að huga áfram að and­legri líðan og fé­lags­leg­um aðstæðum fólks.

Framtíð byggðar­inn­ar og íbúaþátt­taka

  • Óvissa vegna jarðhrær­inga við Grinda­vík er mik­il og ekki þykir ráðlegt að hefja stór­tækt end­ur­reisn­ar­starf við nú­ver­andi aðstæður. Jarðhrær­ing­arn­ar ógna mik­il­væg­um innviðum á Suður­nesj­um öll­um. Því verður sjón­um stjórn­valda í vax­andi mæli beint að styrk­ingu á áfallaþoli sam­fé­lags­ins vegna þeirr­ar ógn­ar sem staf­ar af áfram­hald­andi jarðhrær­ing­um á Reykja­nesskaga.
  • Íbúaþátt­taka og sam­tal stjórn­valda við framtíðar­í­búa verður horn­steinn end­ur­reisn­ar byggðar í Grinda­vík. Á und­an­förn­um vik­um hef­ur ráðgjaf­ar­fyr­ir­tækið Deloitte unnið að grein­ingu á stöðu Grinda­vík­ur og sviðsmynd­um um hvernig Grinda­vík og sam­fé­lag Grind­vík­inga gæti orðið 2035. Stöðumatið og sviðsmynd­irn­ar verða nýtt­ar við áfram­hald­andi stefnu­mót­un stjórn­valda sem og til frek­ara sam­tals við Grind­vík­inga um framtíð byggðar­inn­ar. Und­ir­bún­ing­ur að sam­tali við íbúa og sveit­ar­fé­lagið Grinda­vík­ur­bæ um framtíðar­upp­bygg­ingu bæj­ar­ins hefst strax og er tíðinda að vænta á vor­mánuðum um fyr­ir­komu­lag þeirr­ar vinnu.
mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert