Birta Hannesdóttir Ólafur Pálsson
Ekki hefur komið til umræðu hjá ríkisstjórninni að koma á sérstakri leyniþjónustu hér á landi. Þetta segir Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra innt eftir svörum að loknum ríkisstjórnarfundi í dag.
Aukin umræða hefur verið um stofnun sérstakrar leyniþjónustu hér á landi á meðal sérfræðinga.
Bjarni Már Magnússon, prófessor við lagadeild Háskólans á Bifröst, sagði í aðsendri grein í blaðinu í gær að Ísland væri ekki undanskilið öryggisógnum og þyrfti að verja sig með sömu aðferðum og stærri ríki. Segir hann að ef stigið yrði það skref að setja á laggirnar íslenskan her væri rökrétt að stofna sjálfstæða leyniþjónustu.
Þá hefur Arnór Sigurjónsson varnarmálasérfræðingur einnig sagt að varnarmál ættu að vera í forgangi hjá ríkisstjórninni í þeim breytta heimi sem við búum í. Telur hann að auka þurfi fjárframlög til málaflokksins.
Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, sagði sömuleiðis í viðtali á Rúv í gær að nauðsynlegt væri að koma á fót greiningardeild sem vinnur úr hernaðar- og varnarupplýsingum. Telur hann að það skorti að geta unnið úr þeim upplýsingum með markvissum hætti í dag.
Spurð hvort það standi til að stofna sérstaka stofnun sem sinnir greiningarþjónustu segir Þorbjörg að vinna standi yfir að móta öryggis- og varnarstefnu landsins auk þess sem unnið sé að því að styrkja þá innviði sem þegar eru og nefnir hún sérstaklega Landhelgisgæsluna og lögregluna.
„Það sem við erum að horfa til þess að gera núna í samhengi við þessar aðstæður sem eru á alþjóðavettvangi, og allir vita hverjar eru, er að horfa á þá innviði sem við búum yfir og hvernig við styrkjum og eflum þá. Við erum, sé ég fyrir mér, að auka fjárframlög til Landhelgisgæslunnar og höfum þegar ákveðið að auka fjárframlög til lögreglunnar,“ segir Þorbjörg.
Þá hyggst hún einnig leggja fram frumvarp á haustmánuðum um auknar heimildir í þágu lögregluyfirvalda til að miðla gögnum landanna á milli. Segir hún það meðal annars hugsað til þess svo lögregluyfirvöld á Íslandi standi jafnari fæti við lögregluyfirvöld í nágrannaríkjum okkar.