Samskip hafa sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu vegna ákvörðunar áfrýjunarnefndar samkeppnismála í dag (tengill á fyrri frétt og millifyrirsögn er frá mbl.is):
Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur að hluta fallist á rök Samskipa í kæru fyrirtækisins vegna ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins frá 31. ágúst 2023 um meint ólöglegt samráð Eimskips og Samskipa á árunum 2008-2013. 4,2 milljarða króna sektarákvörðun Samkeppniseftirlitsins hefur þannig verið lækkuð í 2,4 milljarða króna og ályktunum eftirlitsins hafnað að hluta.
Samskip hafa frá upphafi hafnað alfarið öllum ásökunum um hvers kyns samráð við Eimskip og með gögnum og rökum svarað ályktunum Samkeppniseftirlitsins, sem settar hafa verið fram án tengsla við gögn málsins og raunveruleg atvik í rekstri skipafélaganna.
Ljóst er að Samskip hafa orðið fyrir miklum kostnaði af málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins, sem staðið hefur yfir frá árinu 2010. Þá er ljóst að málið í heild sinni og framferði Samkeppniseftirlitsins á öllum stigum málsins hefur skaðað ímynd og orðspor félagsins.
Samskip hafa hins vegar talið mikilvægt að gera allt sem í valdi félagsins stendur til að leiða sannleikann í ljós, þrátt fyrir að slík vegferð sé hvort tveggja í senn tímafrek og kostnaðarsöm. Samskip og Samkeppniseftirlitið hafa nú sex mánuði til að ákveða hvort úrskurður áfrýjunarnefndar verði borinn undir dómstóla.
Samskip munu halda áfram málarekstri á hendur Eimskipi vegna þeirra röngu og tilhæfulausu saka sem Eimskip bar Samskip í sátt sem gerð var við Samkeppniseftirlitið í júní 2021. Yfirlýsingar Eimskips hafa valdið Samskipum tjóni sem enn sér ekki fyrir endann á. Eimskipi verður gert að svara fyrir þær gerðir fyrir dómi.
Samskip munu næstu daga og vikur yfirfara nánar forsendur úrskurðar áfrýjunarnefndarinnar og taka í framhaldinu ákvörðun um hvort málinu verði vísað til dómstóla. Félagið kemur ekki til með að tjá sig frekar um málið fyrr en að þeirri yfirferð lokinni.