Alþýðusambandið (ASÍ) segir að stjórnendur Melabúðarinnar fari með rangt mál þegar þeir fullyrða að verðtökufólki ASÍ hafi aldrei verið vísað á dyr áður.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá ASÍ.
ASÍ vakti athygli á því í gær að Melabúðin hafi ekki tekið þátt í verðlagseftirliti ASÍ.
Melabúðin gagnrýndi ASÍ fyrir að hnýta í litla hverfisverslun og benti á að verslunin byði upp á öðruvísi þjónustu en stórar verslunarkeðjur. Hjá Melabúðinni væri boðið upp á öðruvísi þjónustu og vörur.
Dýrleif Birna Sveinsdóttir, verslunarstjóri Melabúðarinnar, sendi tilkynningu í gær þar sem hún sagði að starfsfólki ASÍ hafi ekki verið vísað á dyr, en að um þetta fyrirkomulag hafi ríkt skilningur.
„Verðtökufólki hefur sannarlega verið vísað á dyr í Melabúðinni áður, þótt öðru sé nú haldið fram,“ segir í tilkynningu ASÍ.
ASÍ sagði í gær sagði að síðast þegar verðlagseftirlit var framkvæmt í janúar hafi komið í ljós að Melabúðin væri að meðaltali 43% dýrari en Bónus.
„Verðlagseftirlit ASÍ leggur ekki mat á gæði, aðeins verð. Neytendum sjálfum er treyst að leggja mat á hvort gæðin séu verðsins virði, en það er réttur fólks að vita hversu dýru verði gæðin eru keypt,“ segir í tilkynningunni sem heldur áfram:
„Það er afstaða Verðlagseftirlitsins að ef verslun getur staðið við sitt verð á kassanum, þá á hún að geta staðið við það opinberlega. Ekki er lagður dómur á réttmæti verðlagningar Melabúðarinnar. Hins vegar er óeðlilegt að farið sé með hana sem leyndarmál.“
Dýrleif Birna sagði að samanburður á verði án tillits til gæða, þjónustu og vöruúrvals drægi upp skakka mynd sem ekki taki tillit til sérstöðu sérverslana.
„Melabúðin sérhæfir sig í fjölbreyttri matvöru, þar á meðal kjöti og fiski, sem unnin er á staðnum af fagfólki og eftir óskum viðskiptavina. Ferskleiki, gæði og persónuleg þjónusta eru í forgrunni og gera Melabúðina einstaka í íslensku verslunarumhverfi, sem samhliða býður upp á dagvörur sem spara fjölskyldum sporin í innkaupum fyrir heimilin,“ sagði í tilkynningunni.