Hafna því að erindið hafi lekið úr ráðuneytinu

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra. mbl.is/Karítas

For­sæt­is­ráðuneytið hafn­ar því að hafa rofið trúnað í máli sem varðar Ásthildi Lóu Þórðardótt­ur, frá­far­andi barna- og mennta­málaráðherra.

Ásthild­ur sagði af sér í kvöld í kjöl­far þess að RÚV greindi frá því að hún hefði átt í ástar­sam­bandi við 15 ára dreng þegar hún var 22 ára. Ári seinna áttu þau barn sam­an.

Enn frem­ur kom fram í frétt RÚV að er­indi hefði verið sent á for­sæt­is­ráðuneytið og það hafi verið heitið trúnaði. Aft­ur á móti fór Ásthild­ur Lóa heim til mann­eskj­unn­ar sem sendi er­indið og reyndi að hringja í hana.

Aðstoðarmaður Kristrún­ar talaði við aðstoðarmann Ásthild­ar

Í til­kynn­ingu frá for­sæt­is­ráðuneyt­inu kem­ur fram að með tölvu­pósti 9. mars hafi for­sæt­is­ráðherra borist beiðni um 5 mín­útna fund án þess að fund­ar­efnið væri til­greint. Þann 11. mars barst aft­ur tölvu­póst­ur frá sama aðila þar sem fyrri ósk um fund var ít­rekuð. Þar var tekið fram að er­indið varðaði mennta- og barna­málaráðherra og að það væri í góðu lagi að mennta- og barna­málaráðherra sæti fund­inn.

Ólaf­ur Kjaran, aðstoðarmaður Kristrún­ar, hafði svo sam­band við aðstoðarmann mennta- og barna­málaráðherra og spurði hvort hún þekkti til send­anda eða vissi um hvað málið sner­ist, sam­kvæmt for­sæt­is­ráðuneyt­inu.

„Svo var ekki. Í kjöl­farið var þess óskað með tölvu­pósti að send­andi myndi skýra er­indið frek­ar. Í kjöl­farið barst tölvu­póst­ur þar sem gerð var nán­ari grein fyr­ir til­efni fund­ar­beiðninn­ar,“ seg­ir í til­kynn­ingu frá for­sæt­is­ráðuneyt­inu.

Er­indið með upp­lýs­ing­un­um barst aðfaranótt 13. mars

Anna Rut Kristjáns­dótt­ir, aðstoðarmaður rík­is­stjórn­ar, seg­ir í sam­tali við mbl.is að aðfaranótt 13. mars hafi for­sæt­is­ráðuneyt­inu svo borist er­indi þar sem er­indi fund­ar­ins er nán­ar til­greint og þar eru viðkvæm­ar trúnaðar­upp­lýs­ing­ar.

„Önnur sam­skipti hafa ekki átt sér stað milli for­sæt­is­ráðuneyt­is og mennta- og barna­málaráðuneyt­is um málið fyrr en í dag. Full­yrðing­ar sem fram koma í frétt RÚV um að for­sæt­is­ráðuneytið hafi rofið trúnað í mál­inu eiga ekki við rök að styðjast,“ seg­ir í til­kynn­ingu RÚV.

Ósvaraðar spurn­ing­ar

Aft­ur á móti vek­ur at­hygli að í viðtali RÚV við Ásthildi í kvöld kveðst hún ekki hafa kann­ast við send­and­ann.

Vek­ur það upp spurn­ing­ar á borð við það af hverju Ásthild­ur hafði sam­band við send­and­ann ef hún vissi ekki er­indið og fund­ar­boðið var stílað á for­sæt­is­ráðherra, ekki barna­málaráðherra. 

Ekki hef­ur náðst í Kristrúnu Frosta­dótt­ur, Ólaf Kjaran né Ásthildi Lóu.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert