Uppsagnir hjá Rauða krossinum

Samn­ing­ur Vinnu­mála­stofn­un­ar við Rauða kross­inn um fé­lags­leg­an stuðning fyr­ir um­sækj­end­ur um alþjóðlega vernd verður ekki end­ur­nýjaður. Sömu sögu er að segja um samn­ing ráðuneyt­is fé­lags­mála um ráðgjaf­arþjón­ustu við flótta­fólk vegna fjöl­skyldusam­ein­inga. Vinnu­mála­stofn­un til­kynnti Rauða kross­in­um um ákvörðun sína í byrj­un vik­unn­ar.

Sá samn­ing­ur renn­ur því út 31. maí og samn­ing­ur vegna fjöl­skyldusam­ein­inga í lok júní. Af þess­um sök­um hef­ur Rauði kross­inn orðið að segja upp sjö starfs­mönn­um er sinnt hafa verk­efn­um tengd­um samn­ing­un­um. 

Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu frá Rauða kross­in­um. 

„Þung tíðindi“

„Þetta eru þung tíðindi og við þurf­um nú að sjá á eft­ir framúrsk­ar­andi starfs­fólki sem sinnt hef­ur þess­um mik­il­vægu verk­efn­um af ein­stakri alúð,“ er haft eft­ir Gísla Rafni Ólafs­syni, fram­kvæmda­stjóra Rauða kross­ins á Íslandi.

Þá kem­ur fram í til­kynn­ing­unni að frá því að Vinnu­mála­stofn­un til­kynnti Rauða kross­in­um um ákvörðun sína hafi sam­töl átt sér stað við for­svars­menn henn­ar og stjórn­valda.

„Okk­ur er annt um að fólkið sem hef­ur nýtt sér þjón­ust­una fái hana áfram er hún fær­ist úr hönd­um okk­ar sjálf­boðaliða og starfs­fólks til hins op­in­bera,“ er enn frem­ur haft eft­ir Gísla.

Bent er á að mark­mið samn­ings­ins milli Rauða kross­ins og Vinnu­mála­stofn­un­ar hafi verið að tryggja vandaðan fé­lags­leg­an stuðning fyr­ir um­sækj­end­ur um alþjóðlega vernd á meðan þeir bíða niður­stöðu eða flutn­ings úr landi. Með fé­lags­leg­um stuðningi sé m.a. átt við fé­lags­starf, virkniúr­ræði og sál­fé­lags­leg­an stuðning.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert