Icelandair fylgist vel með stöðu mála á Heathrow-flugvellinum í London. Tveimur ferðum hefur verið aflýst í dag en flug næstu daga eru enn á áætlun.
Þetta segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, forstöðumaður samskipta hjá Icelandair, í skriflegu svari til mbl.is.
Heathrow-flugvöllur verður lokaður út daginn
Eldur kviknaði í orkustöð skammt frá flugvellinum snemma í morgun og olli rafmagnsleysi. Verður völlurinn lokaður í allan dag og því eru þúsundir manna strandaglópar í London eins og er.
Þar kemur íslenska flugfélagið Play til bjargar en einn af áfangastöðum þess er Stansted-flugvöllurinn í London.
Að sögn Nadine Guðrúnar Yaghi, upplýsingafulltrúa Play, eru augljóslega margir sem leita nú leiða til að komast frá London og kaupa miða annars staðar, þ.á.m. frá Stansted-flugvelli.
„Þannig að einu áhrifin á okkur er í rauninni bara aukin sala,“ segir Nadine í samtali við mbl.is.
Breska ríkisútvarpið greinir frá því að rafmagn virðist vera komið á í flugstöð 4 á Heathrow-flugvelli.
Það breyti því þó ekki að völlurinn verður lokaður til að minnsta kosti 23:59 í kvöld en ekki er vitað með vissu hvenær hann opnar á ný.
Þá er einnig ekki vitað hversu mikil áhrif lokun flugvallarins mun hafa á flugumferð eftir daginn í dag.