„Við erum mjög spennt fyrir þessu svæði og teljum að þarna muni fara vel um fólk,“ segir Guðni Aðalsteinsson, forstjóri fasteignafélagsins Reita.
Reitir eru nú á lokametrunum við vinnu að undirbúningi þess að breyta fyrrverandi skrifstofuhúsnæði Icelandair á Loftleiðasvæðinu við Nauthólsveg í hjúkrunarheimili.
Eins og kom fram í Morgunblaðinu í nóvember síðastliðnum hafa Reitir kynnt þróun og fjölbreytta uppbyggingu svonefnds lífsgæðakjarna á umræddu svæði en skrifað var undir viljayfirlýsingu þess efnis fyrr á síðasta ári.
Auk hjúkrunarheimilis hafa Reitir einnig mótað hugmyndir um íbúðauppbyggingu á þessu svæði fyrir um 120 íbúðir, blöndu af þjónustuíbúðum og almennum leiguíbúðum. Í þjónustukjarna yrði meðal annars matvöruverslun og heilsutengd starfsemi.
Guðni segir að umrætt hjúkrunarheimili verði stórt og veglegt. Byggingin er rúmlega sex þúsund fermetrar að stærð.
„Á heimilinu er gert ráð fyrir um 90 herbergjum og húsið hentar ágætlega. Staðsetningin er framúrskarandi, aðkoman sömuleiðis og við húsið eru næg bílastæði sem er orðið sjaldgæft nú á dögum.“
Umfjöllunina má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.