Þátturinn Tveir með öllu á Bylgjunni naut gríðarlegra vinsælda fyrir ríflega 30 árum en stjórnendur hans voru aldavinirnir Gunnlaugur Helgason og Jón Axel Ólafsson.
Þátturinn skipulagði til dæmis hringferð um landið og setti upp skemmtanir. Mikið var unnið með Stjórninni og Sálinni hans Jóns míns. „Alls staðar varð uppselt á örfáum mínútum og hvert einasta sveitaball var troðið. Dansstaðir uppseldir, þannig að menn höfðu aldrei séð neitt slíkt,“ segir Jón Axel.
Mikið var sent út frá landsbyggðinni og stundum heilu vikurnar með tilheyrandi umstangi. Þátturinn setti upp hátíðir á stöðum sem sendakerfi Bylgjunnar náði ekki til, t.d. á Höfn í Hornafirði. „Þangað var flogið í fjögurra sæta vél eftir mikið skrall á Selfossi og við vorum með sendi með okkur. Settum hann upp og útvörpuðum heilan laugardag. Þá varð til hugmyndin að því sem síðar varð Humarhátíð á Höfn. Fleiri slíkar hátíðir urðu til í framhaldi af heimsóknum þáttarins,“ segir Jón Axel en þar sem þátturinn var með útsendingar úti um allt land var hann með þyrlu til afnota sem einfaldaði allt. „Við notuðum hana svolítið eins og leigubíl, löngu áður en bankastrákarnir urðu eitthvað kúl.“
Þátturinn hafði líka sérstakan bíl til umráða en mikill búnaður var nauðsynlegur þegar sent var út frá landsbyggðinni – stundum hálft tonn af dóti. Sent út frá mörgum skrítnum stöðum, t.d. Mýrdalsjökli. Sett upp loftnet á jöklinum og merki sent til Vestmannaeyja og þaðan til Reykjavíkur. Heilmikið mál.
Yfirferðin var mikil. Í eitt skipti voru Tveir með öllu að skemmta á Egilsstöðum og fóru ekki í koju fyrr en kl. 3 um nóttina. Kvöddu þá meðal annarra Magnús íþróttaálf Scheving. Þegar Magnús reis úr rekkju kl. 9 morguninn eftir kveikti hann á Bylgjunni og þar var Gulli Helga mættur að kynna hafnardaga í Hafnarfirði. Hafði þá flogið suður eldsnemma um morguninn. Magnús trúði ekki sínum eigin eyrum.
Þetta landshornaflakk þeirra tveggja varð upptakturinn að því sem síðar varð Bylgjulestin.
Vinsældir Tveir með öllu náðu hámarki föstudaginn fyrir verslunarmannahelgina 1992. „Eftir ellefufréttir komum við inn, spiluðum eitt lag, einn símahrekk og kvöddum. Allt hitt var auglýsingar,“ segir Gulli sem sjálfur hafði umsjón með takkaborðinu. „Það voru heilu stæðurnar af auglýsingaspólum og stundum gleymdi ég hvaða bunka ég var búinn að spila og hvaða ekki,“ bætir hann við hlæjandi og stendur upp og lyftir höndum til að gefa mér tilfinningu fyrir umfangi stæðnanna.
„Það er óhætt að segja að það sem kom okkur mest á óvart í þessu ævintýri öllu var hversu mikil áhrif þátturinn hafði,“ segir Jón Axel. „Við sáum það ekki fyrir. Hlustendahópurinn var líka alveg ótrúlega breiður, allt frá sex ára upp í áttrætt. Við fengum viðbrögð úr öllum áttum. Okkur leið satt best að segja eins og rokkstjörnum.“
Ítarlega er rætt við Gulla og Jón Axel í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins, þar sem þeir svara meðal annars spurningu um það hvort þeir geti hugsað sér að vinna aftur saman í útvarpi.