„Ég trúi þessu eiginlega ekki enn þá,“ segir Ásta Dóra Finnsdóttir, sem fékk svar frá einum virtasta tónlistarskóla heims, Curtis Institute of Music í bandarísku borginni Fíladelfíu, fyrir viku.
Hún er fyrsti íslenski píanóleikarinn sem kemst inn í skólann, en hann tekur inn mjög fáa nemendur á hverju ári og aðeins þrír nemendur eru teknir inn af þeim 64 píanónemendum sem komust í áheyrnarprufur hjá skólanum. Aðeins 160 nemendur stunda nám í Curtis-tónlistarháskólanum á ári og þrír starfsmenn eru á hverja fjóra nemendur, sem er með því besta sem gerist í heiminum.
Ásta Dóra sótti um fimm tónlistarháskóla, þ. á m. Peabody í Baltimore og Juilliard í New York. Hún fór með föður sínum, Finni Þorgeirssyni, í tvær ferðir í febrúar og núna í mars bæði til Kanada og Bandaríkjanna. Í seinni ferðinni sem var núna fyrr í mánuðinum fór hún í áheyrnarprufur hjá Juilliard og endaði í prufu hjá Curtis.
„Ég var ekkert vongóð um að komast inn og hugsaði með mér að ég myndi bara gera mitt besta og ef það gengi ekki væri það enginn áfellisdómur um mig, heldur væri á þessum degi einhver annar í hópnum að standa sig aðeins betur en ég,“ segir Ásta Dóra og bætir við að það sé nauðsynlegt að hafa ákveðið æðruleysi við þessar aðstæður þar sem samkeppnin er gífurleg.
Fyrsta umferð fór fram 8. og 9. mars og lék Ásta seinni daginn. Þá um kvöldið voru niðurstöður kynntar og Ásta Dóra var ein af þeim sex sem fengu að taka þátt í seinni áheyrnarprufunni, sem var helmingi lengri en sú fyrri. „Ég hélt að ég væri búin að glata stærsta tækifæri lífs míns, því mér fannst ég ekki spila eins og ég get gert best,“ segir Ásta Dóra.
Nemendum var síðan tilkynnt að niðurstaða kæmi í tölvupósti 1. apríl, á sama tíma og niðurstöður áttu að berast frá Juilliard og Peabody. Það gekk þó ekki eftir því feðginin voru varla komin heim þegar bréf var komið til Ástu Dóru og hún hafði komist inn. „Þegar ég opnaði bréfið og sá það öskraði ég af gleði. Æðsti draumur minn hafði ræst.“
Til gamans má geta þess að kennari í dómnefndinni sem færði þeim fréttirnar um inngönguna er sonur Alexanders Solzhenitsyn og heitir Ignat Solzhenitsyn.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í gær, laugardag.