Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og sérsveit ríkislögreglustjóra voru með aukinn viðbúnað í miðbæ Reykjavíkur í nótt vegna stunguárásar og hópslagsmála frá því á föstudagskvöld.
Ásgeir Þór Ásgeirsson aðstoðarlögreglustjóri segir í samtali við mbl.is að nóttin hafi verið tiltölulega róleg og að engin alvarleg atvik hafi átt sér stað.
Greint var frá því í gær að þrettán manns hefðu verið handteknir í tengslum við stunguárás og hópslagsmál á Ingólfstorgi. Þeim hefur nú öllum verið sleppt úr haldi.
Tveir voru lagðir inn á sjúkrahús í kjölfar stunguárásarinnar og hópslagsmálanna en þeir eru báðir útskrifaðir. Annar þeirra var stunginn í þrígang en hinn var barinn í höfuðið með vopni.
Lögreglan er með málið til rannsóknar og hefur óskað eftir myndefni þeirra sem áttu leið um Ingólfstorg á föstudagskvöld.