Barnið sem ekki mátti tala um

Knud litli lést aðeins fimm ára úr berklum. Faðir hans, …
Knud litli lést aðeins fimm ára úr berklum. Faðir hans, Jóhann Jónsson skáld, vissi aldrei að hann ætti barn. ​Ljósmyndir úr fjölskyldualbúmi afkomenda Knuds Østergaards yngri.

Sagn­fræðing­ur­inn og blaðamaður­inn Guðmund­ur Magnús­son vinn­ur að ævi­sögu Jó­hanns Jóns­son­ar skálds (1896-1932) en Jó­hann var afa­bróðir Guðmund­ar. Jó­hann lést ung­ur úr berkl­um en skildi eft­ir sig ljóð sem lifa með þjóðinni og eru tal­in meðal þeirra sem marka upp­haf nú­tíma­ljóðagerðar á Íslandi.

Ljóðið Söknuð þekkja marg­ir en það hefst á orðunum „Hvar hafa dag­ar lífs þíns lit sín­um glatað“. Jó­hann átti erfiða ævi og barðist bæði við fá­tækt og berkla sem hann fékk fyrst sem ung­ur dreng­ur í fót­inn og gerði hann halt­an fyr­ir lífstíð. Nítj­án ára gam­all átti Jó­hann í ástar­sam­bandi við frá­skilda þriggja barna móður í Reykja­vík, El­ínu Jóns­dótt­ur Thor­ar­en­sen (1881-1956), um fimmtán árum eldri.

Slíkt þótti ekki við hæfi snemma á tutt­ug­ustu öld­inni og fundu þau bæði fyr­ir for­dóm­um og hneyksl­un fólks vegna sam­bands­ins. Þegar Elín varð barns­haf­andi ákvað hún að leyna því og fór til Kaup­manna­hafn­ar þar sem hún fæddi dreng sem hún gaf dönsk­um hjón­um bú­sett­um á Jótlandi. 

„Ekki segja Jó­hanni“

Ævi­sag­an um Jó­hann er enn í vinnslu, en Guðmund­ur hef­ur lengi haft áhuga á að kafa dýpra og finna fleiri heim­ild­ir sem varpað gætu ljósi á ævi Jó­hanns.

Guðmundur er að vinna að ævisögu Jóhanns sem er afabróðir …
Guðmund­ur er að vinna að ævi­sögu Jó­hanns sem er afa­bróðir hans.

„Það hef­ur alltaf verið talað mikið um Jó­hann Jóns­son í minni fjöl­skyldu og ýms­ar ráðgát­ur um hans ævi. Við höf­um reynt að halda utan um gögn um hann sem ekki eru á söfn­um,“ seg­ir Guðmund­ur og rek­ur stutt­lega sög­una af kynn­um Jó­hanns og El­ín­ar.

„Sum­arið 1915 var Jó­hann, þá við nám í Reykja­vík, að leita að stað til að borða á, en á þess­um tíma var al­gengt að náms­menn og versl­un­ar­menn borðuðu há­deg­is­mat hjá mat­selj­um í heima­hús­um. Jó­hanni var bent á El­ínu Thor­ar­en­sen í Þing­holts­stræti 18 og var sagt að hún væri með laust pláss. Það var upp­haf þeirra kynna. Hún heillaðist strax af hon­um og það hef­ur verið gagn­kvæmt. Í rúm­lega eitt ár skap­ast sterkt sam­band á milli þeirra, þótt hann væri rétt nítj­án ára en hún 34 ára,“ seg­ir hann.

„Þegar þau Elín og Jó­hann fara hvort í sína átt­ina haustið 1916, hann norður til Ak­ur­eyr­ar og hún til Kaup­manna­hafn­ar, er ekki ósætti á milli þeirra held­ur virðist Elín hafa kom­ist að þeirri niður­stöðu að sam­band þeirra gæti ekki gengið og það skaðaði framtíð Jó­hanns. Hún hef­ur verið orðin barns­haf­andi í ág­úst 1916 og fór út í lok sept­em­ber. Barnið fædd­ist svo í maí 1917, en Jó­hann virðist ekki hafa vitað af því.

Elín hef­ur viljað forðast óþæg­indi og niður­læg­ingu bæj­arslúðurs­ins. Hún fór með danska skip­inu Íslandi en sam­ferða henni var guðfræðing­ur­inn Friðrik Aðal­steinn Friðriks­son sem var þá á leiðinni til Seyðis­fjarðar. Þau þekkt­ust vel, en hann var æsku­vin­ur Jó­hanns frá Ólafs­vík. Hún trúði Friðriki fyr­ir því að hún væri barns­haf­andi, en bætti við: „Ekki segja Jó­hanni.“ Þetta er í raun­inni það eina sem við viss­um fyr­ir víst um þetta mál fram að þessu,“ seg­ir Guðmund­ur.

Keypti upp­lagið og fargaði

„Eft­ir sex ára dvöl kom Elín heim frá Kaup­manna­höfn árið 1922, og stofnaði aft­ur til mat­sölu í Reykja­vík,“ seg­ir Guðmund­ur.

„Hún og Jó­hann sáust aldrei aft­ur, en hann fór til Þýska­lands árið 1921 og átti ekki aft­ur­kvæmt,“ seg­ir Guðmund­ur. Jó­hann lést úr berkl­um í Leipzig haustið 1932.

Löngu síðar, árið 1947, ákvað Elín að segja sögu þeirra.

„Þá var hún kom­in á sjö­tugs­ald­ur og skrifaði litla bók sem heit­ir Ang­an­týr, en það var nafnið sem hún kallaði hann, en hann kallaði hana Bryn­hildi. Þetta er mjög ein­læg frá­sögn og um margt merki­leg, en það þótti nú ekki nógu gott í gömlu Reykja­vík að hún væri að skrifa svona. Þetta vakti sár­indi í fjöl­skyldu henn­ar og hjá ýms­um sem annt var um minn­ingu Jó­hanns.

Elsti son­ur El­ín­ar, Jón Thor­ar­en­sen, sem þá var orðinn prest­ur, er sagður hafa gengið í all­ar bóka­búðir borg­ar­inn­ar, keypt þær bæk­ur sem hann komst yfir og fargað. Svona var viðkvæmn­in fyr­ir þessu mik­il,“ seg­ir Guðmund­ur, en þess má geta að hvergi í bók­inni er minnst á barnið, held­ur aðeins ástar­sam­bandið.

Mynd af Jóhanni Jónssyni skáldi er á heimili Guðmundar Magnússonar.
Mynd af Jó­hanni Jóns­syni skáldi er á heim­ili Guðmund­ar Magnús­son­ar. mbl.is/Á​sdís

„En við út­gáfu bók­ar­inn­ar fór sag­an um barnið aft­ur á flug í fjöl­skyld­un­um, en var aldrei til neins staðar á prenti. Það var ekki fyrr en við end­urút­gáfu Ang­an­týs árið 2011 að minnst er á barnið, en Soffía Auður Birg­is­dótt­ir sá um þá út­gáfu. Hún hafði sam­band við mig og ég reyndi að afla upp­lýs­inga um þetta en varð ekki ágengt. Í bók­inni seg­ir í eft­ir­mála Soffíu að ekki sé vitað hvort þetta barn hafi fæðst eða hvað hafi orðið um það.“

Heim­ild­ir um til­vist barns­ins

Fyr­ir nokkr­um dög­um rakst Guðmund­ur á blogg hjá Þór­dísi Gísla­dótt­ur skáld­konu sem er stödd í Kaup­manna­höfn að kanna gögn um ævi ís­lenskra kvenna í borg­inni á síðustu öld.

„Ég hafði ætlað mér að fara út í haust og leita gagna, en frestaði ferðinni þegar hús­næði brást. Ég skrifaði því Þór­dísi og spurði hana hvort hún hefði nokkuð rek­ist á nafn El­ín­ar í öll­um þess­um kvenna­skjöl­um. Dag­inn eft­ir svaraði hún mér og sagði það ótrú­lega til­vilj­un að ein­mitt dag­inn áður hefði hún verið að fletta bók dönsku Mæðrahjálp­ar­inn­ar frá ár­inu 1917 og þar stend­ur að Elín hafi notið aðstoðar henn­ar með ný­fætt barn.

Faðir þess sé Jó­hann Jóns­son. Þetta er fyrsta skrif­lega heim­ild­in um að barnið hafi verið til,“ seg­ir Guðmund­ur, sem síðar bað Þór­dísi, ef hún hefði tök á, að kanna málið bet­ur og lét henni í té heim­il­is­föng sem gætu hjálpað. Þess má geta að hægt er að lesa nán­ar um rann­sókn og fundi Þór­dís­ar á thord­is­gisla.blog­spot.com.

Litli drengurinn Knud átti ekki langa ævi.
Litli dreng­ur­inn Knud átti ekki langa ævi.

„Þór­dís er afar fróð og vand­virk og henni tókst að rekja fer­il barns­ins frá fæðing­ar­deild spít­al­ans í Kaup­manna­höfn og al­veg þar til dreng­ur­inn var ætt­leidd­ur af bænda­fólki á Norður-Jótlandi. Svo fann hún út að hann dó úr berkl­um árið 1922 og eins að hjón­in höfðu eign­ast ann­an dreng sem fékk sama nafn það ár, Knud Østerga­ard,“ seg­ir hann.

Guðmund­ur hafði þá sam­band við Østerga­ard-fjöl­skyld­una og fékk að vita að sá dreng­ur hafði einnig verið ætt­leidd­ur, sama ár og þau misstu Knud. Fékk hann þá sama nafn og hinn látni son­ur Jó­hanns og El­ín­ar. Frá dótt­ur Knuds yngri fékk hann tvær mynd­ir af Knud litla, barni Jó­hanns og El­ín­ar. Er þetta í fyrsta skipti sem birt­ar eru ljós­mynd­ir af litla drengn­um sem Jó­hann virðist aldrei hafa vitað að hann ætti.

Ítar­lega er rætt við Guðmund í Sunnu­dags­blaði Morg­un­blaðsins um málið. 

Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert