Fékk síma og heimilisfang frá aðstoðarmanni forsætisráðherra

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, fyrrverandi mennta- og barnamálaráðherra.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir, fyrrverandi mennta- og barnamálaráðherra. mbl.is/Karítas

Aðstoðarmaður Kristrún­ar Frosta­dótt­ur for­sæt­is­ráðherra sendi aðstoðar­manni Ásthild­ar Lóu skjá­skot af er­indi Ólaf­ar Björns­dótt­ur sem inni­hélt heim­il­is­fang henn­ar og síma­núm­er.

Þetta kem­ur fram í tíma­línu sam­skipta sem for­sæt­is­ráðuneytið hef­ur gefið út í tengsl­um við er­indi sem barst ráðuneyt­inu vegna Ásthild­ar Lóu Þórs­dótt­ur þáver­andi mennta- og barna­málaráðherra.

Eins og áður hef­ur komið fram hringdi þáver­andi ráðherra, Ásthild­ur Lóa, ít­rekað í Ólöfu í kjöl­far er­ind­is henn­ar og mætti heim til henn­ar að kvöldi til, í kjöl­far þess að hún óskaði eft­ir fundi við for­sæt­is­ráðherra og krafðist þess að ráðherr­ann stigi til hliðar vegna þess að hún barn með 16 ára tán­ingi er hún sjálf var 22 ára.

Ekki heim­ilt að heita trúnaði

Fram kem­ur í gögn­um máls­ins að Ólöfu hafi hvorki verið heit­inn trúnaður af for­sæt­is­ráðuneyt­inu né stjórn­ar­ráðinu, hvorki í tölvu­pósti né sím­tali. Ólöf er ekki nafn­greind í gögn­un­um.

Ólöf hafði áður sagt að í sím­tali sem hún átti við for­sæt­is­ráðuneytið hafi komið fram að trúnaði væri haldið um er­indi sem til ráðuneyt­is­ins ber­ast.

Í grein­ar­gerð þar sem tíma­lín­an er rak­in kem­ur fram að sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Umbru, þjón­ustumiðstöð Stjórn­ar­ráðsins, hafi borist þangað sím­tal frá Ólöfu þamm 11. mars, kl. 12:06, þar sem óskað var eft­ir sam­tali við for­sæt­is­ráðherra.

Sím­talið hafi ekki verið áfram­sent á starfs­menn for­sæt­is­ráðuneyt­is­ins en henni hafi verið leiðbeint um að hafa sam­band við ráðuneytið á net­fang þess. Ekki hafi verið rædd efn­is­atriði máls­ins eða trúnaði heitið.

„Í því sam­bandi skal áréttað að stjórn­völd­um er ekki heim­ilt að heita trúnaði um upp­lýs­ing­ar sem þeim ber­ast, enda gild­ir sú meg­in­regla að upp­lýs­ing­ar og gögn sem stjórn­völd­um ber­ast skulu vera aðgengi­leg nema þær tak­mark­an­ir á upp­lýs­inga­rétti sem mælt er fyr­ir um í upp­lýs­inga­lög­um eða sér­lög­um eigi við.“

Sendi per­sónu­upp­lýs­ing­ar í texta­skila­boðum

Hvað upp­lýs­inga­gjöf til þáver­andi ráðherra Ásthild­ar Lóu varði, hafi aðstoðarmaður Kristrún­ar Frosta­dótt­ur for­sæt­is­ráðherra, það er Ólaf­ur Kjaran, sent aðstoðar­manni Ásthild­ar Lóu texta­skila­boð 11.mars. Þar hafi hann spurst fyr­ir um hvort ráðherra þekkti til Ólaf­ar eða mögu­legs fund­ar­efni.

Með skila­boðunum fylgdi skjá­skot af fund­ar­beiðninni sem inni­hélt nafn, síma­núm­er og heim­il­is­fang kon­unn­ar sem er­indið sendi. 

Ólafur Kjaran Árnason aðstoðarmaður Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra.
Ólaf­ur Kjaran Árna­son aðstoðarmaður Kristrún­ar Frosta­dótt­ur for­sæt­is­ráðherra. Ljós­mynd/​Aðsend

Síðar sama dag hitt­ust aðstoðar­menn ráðherr­anna tveggja á Alþingi þar sem ráðherr­ar svöruðu óund­ir­bún­um fyr­ir­spurn­um. Þar greindi aðstoðarmaður Ásthild­ar Lóu Ólafi Kjaran frá því munn­lega að Ásthild­ur Lóa þekkti ekki til Ólaf­ar og vissi ekki um hvað mögu­legt fund­ar­efni sner­ist. Ásthild­ur Lóa kom á eft­ir aðstoðar­manni sín­um og staðfesti þetta einnig við Ólaf.

Frek­ari sam­skipti milli ráðuneyt­anna tveggja áttu sér ekki stað um fund­ar­beiðnina eða málið að öðru leyti fyrr en 20. mars, þegar þeim varð ljóst að fjöl­miðlar væru komn­ir á snoðir um málið.

Boðað til fund­ar í kjöl­far fyr­ir­spurna Rúv.

Í sím­tali að morgni 20. mars óskaði fréttamaður Rúv. eft­ir upp­lýs­ing­um frá aðstoðar­manni for­sæt­is­ráðherra um það hvort er­indi Ólaf­ar hefði borist ráðuneyt­inu.

Í skila­boðum sem aðstoðarmaður Ásthild­ar Lóu sendi aðstoðar­manni Kristrún­ar sama dag var óskað eft­ir fundi henn­ar með Kristrúnu og Ingu Sæ­land, fé­lags- og hús­næðismálaráðherra og for­manns Flokks fólks­ins, um málið vegna fyr­ir­spurna RÚV til Ásthild­ar Lóu.

For­sæt­is­ráðherra var upp­lýst­ur um þetta um kl. 14 og var í kjöl­farið efnt til fund­ar formanna rík­is­stjórn­ar­flokk­anna þriggja og Ásthild­ar Lóu sem lauk á sjötta tím­an­um þann sama dag.

Tíma­lín­una má lesa í heild sinni hér fyr­ir neðan:

Tölvu­póst­sam­skipti vegna er­ind­is­ins má skoða hér fyr­ir neðan:

Ekki liggja enn fyr­ir af­rit af texta­skila­boðum sem gengu á milli.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert