Dálítil lægð gengur austur yfir landið fyrri part dags. Áttin verður því breytileg. Gera má ráð fyrir fremur hægum vindi og rigningu, slyddu eða snjókomu með köflum í flestum landshlutum.
Eftir hádegi fjarlægist lægðin og það styttir upp. Þó má búast við lítilsháttar éljum á Norðurlandi. Hiti verður á bilinu 0 til 9 stig í dag, hlýjast suðaustantil. Í kvöld frystir allvíða.
Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.
Á morgun nálgast næstu skil úr suðvestri.
„Þeim fylgir austan- og suðaustanátt, vindur yfirleitt á bilinu 5-15 m/s, hvassast við suðvesturströninda. Sunnantil á landinu verður úrkoman ýmist rigning, slydda eða snjókoma og hiti á bilinu 0 til 6 stig. Norðan- og austanlands verður hins vegar þurrt framan af degi og vægt frost, en seinnipartinn má búast við snjókomu með köflum á þeim slóðum. Annað kvöld verður vindur svo suðlægari og það hlánar um landið vestanvert,“ segir í hugleiðingunum.