Karlmaður sem kastaði öðrum manni fram af svölum fyrir þremur helgum var handtekinn af lögreglu í kjölfarið. Brotaþolinn var fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar með áverka.
Málið er til rannsóknar hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra.
Þetta segir Börkur Árnason, varðstjóri hjá lögreglunni á Akureyri, í samtali við mbl.is.
Lögreglan á Norðurlandi eystra greindi frá atvikinu í færslu á samfélagsmiðlum fyrr í dag. Í fyrstu umfjöllun mbl.is um málið kom fram að atvikið hefði gerst um síðustu helgi en það er ekki rétt og hefur verið leiðrétt.
Í færslunni segir lögreglan að ofbeldishegðun í samfélaginu hafi aukist töluvert undanfarin misseri og kveðst hún hafa miklar áhyggjur af því.
„Þarna var manni hent fram af stigagangi þar sem hann fer yfir vegg og lendir á öðrum stigapalli,“ segir Börkur.
Hann segir að brotaþolinn hafi ekki verið í lífshættu en að hann hafi verið fluttur á sjúkrahús með einhverja áverka. Börkur segist ekki vera með upplýsingar um tengsl árásarmannsins og brotaþola.