Rauði krossinn á Íslandi hefur samið um kaup á 25 nýjum sjúkrabílum. Þar á meðal eru svokallaðir Box-bílar, en með þeirra tilkomu er verið að mæta þörf fyrir betra rými og vinnuaðstöðu í sjúkrarými bílanna.
Stefnt er að fyrstu bílarnir komi til landsins eftir um 18 mánuði.
Þetta segir í tilkynningu frá Rauða krossinum á Íslandi.
Um er að ræða sautján Van-sjúkrabíla eins og þegar þekkjast á götum landsins og átta fyrrnefnda Box-bíla, en þetta er í fyrsta sinn sem þeir eru keyptir hingað til lands.
Samið var við Fastus ehf. um kaupin á bílunum með möguleika á að kaupa aðra 25 til viðbótar og verða þeir smíðaðir hjá BAUS AT í Póllandi sem hefur smíðað sjúkrabíla fyrir Rauða krossinn undanfarin ár.
„Með tilkomu Box-bíla er verið að mæta þörf fyrir betra rými og vinnuaðstöðu inni í sjúkrarýminu,“ er haft eftir Marinó Má Marinóssyni, verkefnastjóra sjúkraflutninga hjá Rauða krossinum.
„Nú verður hægt að sitja báðum megin við sjúkling inni í sjúkrarýminu þannig að aðgengi að sjúklingi verður mun betra meðan á flutningi stendur, ólíkt hefðbundnum sjúkrabílum þar sem rýmið er takmarkaðra.“
Þá eru kassarnir á Box-bílunum hannaðir sérstaklega fyrir sjúkraflutninga og er skipulag á skápum og hillum í þeim að sögn Marinós betra og stærra. Bílarnir séu byggðir fyrir mikla notkun og taldir endingarbetri.
Boxin séu sett saman í einingum og því eigi að vera auðveldara að skipta út að gera við einstaka hluta, eins og skápa og rafkerfi, án þess að hafa áhrif á aðra hluti í bílnum.
Þá er gert ráð fyrir að nýju bílarnir verði staðsettir á stöðum í landinu þar sem álag er mest, t.d. á stóru þéttbýlisstöðunum.