Samtalið „verður ekkert viðrað hér í smáatriðum“

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra og Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, ræddu um …
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra og Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, ræddu um afsögn Ásthildar Lóu Þórsdóttur á Alþingi í dag. Samsett mynd/mbl.is/Eyþór/Ólafur Árdal

Kristrún Frosta­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra seg­ir að Ásthild­ur Lóa Þórs­dótt­ir verði sjálf að segja frá því hvers vegna hún sagði af sér sem mennta- og barna­málaráðherra í liðinni viku. „Sam­tal okk­ar þriggja á milli verður ekk­ert viðrað hér í smá­atriðum. Auðvitað eru ýms­ir þætt­ir máls­ins sem eru rædd­ir.“

Þetta kom fram í óund­ir­bún­um fyr­ir­spurn­ar­tíma á Alþingi í dag þar sem af­sögn Ásthild­ar Lóu og viðbrögð rík­is­stjórn­ar­inn­ar voru mál mál­anna. 

Hvaða aðrir val­kost­ir voru rædd­ir?

Guðrún Haf­steins­dótt­ir, formaður og þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, spurði ráðherra hvaða aðrir val­kost­ir hefðu komið til tals á milli Ásthild­ar Lóu og formanna rík­is­stjórn­ar­flokk­anna. 

„For­sæt­is­ráðherra hef­ur ekki gert grein fyr­ir hvaða aðrir val­kost­ir voru rædd­ir, ef ein­hverj­ir voru, eða hvað í mál­inu leiddi til þess­ar­ar niður­stöðu. Það er mik­il­vægt að þingið og þjóðin fái skýr svör. Hvers vegna var það mat for­sæt­is­ráðherra og sam­starfs­flokk­anna að Ásthild­ur Lóa Þórs­dótt­ir skyldi víkja úr embætti og hvaða aðrir kost­ir voru í raun til skoðunar áður en ákvörðun var tek­in,“ spurði Guðrún. 

Ýmsir þætt­ir máls­ins rædd­ir

Kristrún svaraði og sagði að það væri í grund­vall­ar­atriðum í hendi fyrr­ver­andi ráðherra að segja frá því hvers vegna hún hefði tekið þá ákvörðun að segja af sér.

„Sam­tal okk­ar þriggja á milli verður ekk­ert viðrað hér í smá­atriðum. Auðvitað eru ýms­ir þætt­ir máls­ins sem eru rædd­ir. Ég held að það liggi al­veg fyr­ir, eins og hef­ur bara víða komið fram, enda hef­ur þetta mál verið viðrað mjög ræki­lega og all­ar upp­lýs­ing­ar borist, að það er á þess­um fundi sem ég og formaður Viðreisn­ar fáum í fyrsta skipti frá­sögn þáver­andi ráðherra af þess­ari stöðu. Þetta er í fyrsta skipti sem við ræðum við hana um þetta mál og stór hluti fund­ar­ins fer ein­fald­lega í að fara yfir málið,“ seg­ir Kristrún. 

Kristún tók fram að það lægi fyr­ir og hún hefði áður sagt það sjálf op­in­ber­lega, og Ásthild­ur Lóa væri einnig meðvituð um það, að það hefðu ekki verið eðli­leg viðbrögð hjá henni að ákveða að banka upp á hjá kon­unni sem hratt mál­inu af stað. 

Ekki eðli­leg hegðun hjá ráðherra

„Ég held að það geti all­ir tekið und­ir að það er ekki eðli­leg hegðun af hálfu ráðherra í þessu sam­hengi. Þannig að það eitt og sér finnst mér um­hugs­un­ar­vert hjá mann­eskju í slíkri stöðu. Hún áttaði sig á því og var líka meðvituð um það.

Síðan vil ég bæta því við að al­gjör­lega óháð því hvað í grund­vall­ar­atriðum réð henn­ar af­stöðu, því að það er ekki mitt að segja frá því hvað dreif henn­ar ákv­arðana­töku í grund­vall­ar­atriðum, þá ligg­ur það auðvitað fyr­ir að þegar upp koma svona mál þá taka þau á og fólk þarf ein­fald­lega tíma til að jafna sig,“ sagði Kristrún. 

Snýst um ráðherr­ann sem sat og gerði ekk­ert

Guðrún sagði að svar henn­ar hefði vakið upp fleiri spurn­ing­ar en svör.

„För­um aðeins yfir þetta. Hér seg­ir hæst­virt­ur for­sæt­is­ráðherra að þarna hafi á þess­um fimmtu­degi for­menn flokk­anna í fyrsta sinn heyrt af þess­ari frá­sögn. En það er staðreynd að for­sæt­is­ráðherra og Ásthild­ur Lóa Þórs­dótt­ir, hátt­virt­ur þingmaður, hitt­ust nokkr­um sinn­um dag­ana 13.–20. mars og það hefði verið bæði mögu­legt og eðli­legt að spyrja hana út í málið án þess að brjóta trúnað. Eng­in form­leg at­hug­un virðist hafa farið fram, ekk­ert mat, eng­in viðtöl, eng­in grein­ing. Eina ákvörðunin sem virðist hafa verið tek­in er að hafna fund­ar­beiðni frá þeim sem hafði komið með upp­lýs­ing­arn­ar og ýta ráðherr­an­um í far­veg af­sagn­ar.

Ég vil því spyrja aft­ur: Ef for­sæt­is­ráðherra taldi málið svo al­var­legt að það rétt­lætti af­sögn ráðherr­ans, hvers vegna gerði hæst­virt­ur for­sæt­is­ráðherra ekk­ert í heila viku? Var þetta van­mat á al­vöru máls­ins eða von um að það gengi yfir án frek­ari umræðu? Þetta snýst ekki leng­ur um ráðherr­ann sem vék, þetta snýst um ráðherr­ann sem sat og gerði ekk­ert,“ sagði Guðrún. 

Ósam­mála því að ekk­ert hafi verið gert

Kristrún tók fram að um gíf­ur­lega viðkvæmt mál væri að ræða sem hefði átt sér stað fyr­ir 35 árum.

„Ég held að það hljóti all­ir hér inni að vera sam­mála því að þegar inn í ráðuneyti berst svona frá­sögn frá þriðja aðila, sem er ekki aðili að máli, þá er rétt að vanda til verka. Það er rétt að vanda til verka og ég held að við hljót­um öll að vera meðvituð um það, eft­ir frétt­ir síðustu daga, að það er ekki aug­ljóst hvernig þú ferð af stað í máli sem berst frá þriðja aðila, að þú tak­ir upp sím­ann og ræðir um­rætt mál beint við ráðherra áður en þú aðhefst, þar með talið er ekki verið að taka af­stöðu til máls­ins. Það voru sex dag­ar liðnir frá því að er­indið kom inn í for­sæt­is­ráðuneytið, þar með talið er helgi þarna á milli. Þó að stjórn­sýsl­an hafi ekki hreyft sig í ákv­arðana­töku í þessu máli eft­ir sex daga þýðir það ekki að ekk­ert hafi verið gert,“ sagði Kristrún. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert