Rannsókn lögreglu í máli manns sem er grunaður um að hafa keypt aðgang að og dreift baraníðsefni sem búið var til með aðstoð gervigreindar er í fullum gangi en maðurinn var handtekinn í tengslum við umfangsmiklar aðgerðir Europol í síðasta mánuði.
„Við þurfum að fara skoða myndefnið en það tekur sinn tíma að afrita gögn og ekki síst að fara yfir myndefnið og greina hvað sé barnaníðsefni og hvað ekki,“ segir Bylgja Hrönn Baldursdóttir, hjá kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, við mbl.is en við húsleit hjá manninum var lagt hald á muni í hans eigu og í framhaldinu var tekin skýrsla af honum.
Bylgja Hrönn segir að einn munur geti verið með gríðarlegt magn af efni og geti hlaupið á terabætum og það gefi augaleið að það geti tekið lengri tíma að vinna úr því.
Maðurinn, sem var handtekinn á höfuðborgarsvæðinu, er ekki í gæsluvarðhaldi að sögn Bylgju.
Aðgerðin gekk undir nafninu Cumberland, en hana leiddu dönsk lögregluyfirvöld. Um var að ræða samræmdar aðgerðir með fulltingi Europol í sautján Evrópulöndum, auk Ástralíu og Nýja-Sjálands. 25 manns í 19 löndum vorum handteknir í aðgerðunum.
Meintur höfuðpaur í málinu er danskur ríkisborgari, sem var handtekinn í lok síðasta árs. Hann er sagður hafa búið til barnaníðsefni og notað til þess gervigreind og síðan selt aðgang að efninu á netinu.