„Þurfum að fara að skoða myndefnið“

Einn var hand­tek­inn á Íslandi í síðasta mánuði en hann …
Einn var hand­tek­inn á Íslandi í síðasta mánuði en hann er grunaður um að hafa keypt aðgang að og dreift barn­aníðsefni sem búið var til með aðstoð gervi­greind­ar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rann­sókn lög­reglu í máli manns sem er grunaður um að hafa keypt aðgang að og dreift bar­aníðsefni sem búið var til með aðstoð gervi­greind­ar er í full­um gangi en maður­inn var hand­tek­inn í tengsl­um við um­fangs­mikl­ar aðgerðir Europol í síðasta mánuði.

„Við þurf­um að fara skoða mynd­efnið en það tek­ur sinn tíma að af­rita gögn og ekki síst að fara yfir mynd­efnið og greina hvað sé barn­aníðsefni og hvað ekki,“ seg­ir Bylgja Hrönn Bald­urs­dótt­ir, hjá kyn­ferðis­brota­deild lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu, við mbl.is en við hús­leit hjá mann­in­um var lagt hald á muni í hans eigu og í fram­hald­inu var tek­in skýrsla af hon­um.

Bylgja Hrönn seg­ir að einn mun­ur geti verið með gríðarlegt magn af efni og geti hlaupið á tera­bæt­um og það gefi auga­leið að það geti tekið lengri tíma að vinna úr því.

Maður­inn, sem var hand­tek­inn á höfuðborg­ar­svæðinu, er ekki í gæslu­v­arðhaldi að sögn Bylgju.

Aðgerðin gekk und­ir nafn­inu Cum­berland, en hana leiddu dönsk lög­reglu­yf­ir­völd. Um var að ræða sam­ræmd­ar aðgerðir með fulltingi Europol í sautján Evr­ópu­lönd­um, auk Ástr­al­íu og Nýja-Sjá­lands. 25 manns í 19 lönd­um vor­um hand­tekn­ir í aðgerðunum.

Meint­ur höfuðpaur í mál­inu er dansk­ur rík­is­borg­ari, sem var hand­tek­inn í lok síðasta árs. Hann er sagður hafa búið til barn­aníðsefni og notað til þess gervi­greind og síðan selt aðgang að efn­inu á net­inu.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert