Tveir menn voru handteknir í hverfi 101 vegna húsbrots og eignaspjalla og voru mennirnir vistaðir í fangaklefa.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til 5 í morgun. Alls eru 49 mál bókuð í kerfum lögreglu á tímabilinu.
Þá var maður handtekinn í hverfi 101 vegna brots á vopnalögum og að segja ekki til nafns þegar lögregla hafði afskipti af honum. Hann var vistaður í fangaklefa.
Nokkur fjöldi ökumanna voru kærðir fyrir hin ýmsu umferðarlagabrot s.s. akstur án ökuréttinda og akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna.
Kona í annarlegu ástandi vegna ölvunar var til vandræða í hverfi 103 og var henni ekið til síns heima. Þá fékk lögreglan tilkynningu um grunsamlegar mannaferðir í hverfum 110, 104 og 101.