Tillaga verður lögð fyrir fund Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) í næsta mánuði um stofnun mengunarvarnarsvæðis fyrir skip í lögsögu Íslands auk sjö annarra ríkja.
Verði tillagan samþykkt munu hertari reglur um mengunarvarnir taka gildi á svæðinu árið 2027.
Þetta segir í tilkynningu frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu.
Kemur þar fram að á vegum IMO sé hægt að skilgreina hafsvæði þar sem strangari reglur gilda um mengunarvarnir en almennt gerist í alþjóðasiglingum og að slík svæði (Emission Control Areas, ECA) nái nú m.a. yfir Norðursjó, Eystrasalt, Miðjarðahaf sem og lögsögur Noregs, Kanada og Bandaríkjanna.
Svæðin þurfi að fá samþykki innan IMO þar sem ríki hafa ekki almennt vald til þess að setja mengunarvarnareglur í lögsögum utan eigin landhelgi eða á alþjóðlegum siglingaleiðum.
Mengunarvarnasvæðið (AtlECA) myndi ná til lögsögu Grænlands, Færeyja, Bretlands, Írlands, Frakklands, Spánar og Portúgals, auk Íslands.
Verði tillagan samþykkt munu hertar reglur um mengunarvarnir taka gildi á svæðinu árið 2027.
Reglurnar munu þó ekki ná til skipa sem þegar eru í rekstri, heldur eingöngu til nýrra stærri skipa sem kom inn í flotann á árinu 2027 eða síðar.
„Mjög hefur dregið úr notkun svartolíu í íslenskum skipum á undanförnum árum og þar með líka loftmengun af völdum sóts og brennisteinssambanda. Hertar kröfur um mengun af völdum köfnunarefnissambanda kalla á notkun hvarfakúta eða annarra ráðstafana í nýjum skipum sem koma inn 2027 og síðar,“ segir í tilkynningunni.