Áður óþekkt fylgni geðhvarfa og breytileika í genum

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, ásamt vísindamönnunum Þorgeiri Þorgeirssyni og …
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, ásamt vísindamönnunum Þorgeiri Þorgeirssyni og Vinicius Tragante sem eru höfundar að greininni. Ljósmynd/Aðsend

Vís­inda­menn Íslenskr­ar erfðagrein­ing­ar hafa fundið fylgni á milli áhættu á geðhvörf­um og sjald­gæfra breyti­leika í tveim­ur genum, að því er fram kem­ur í frétta­til­kynn­ingu.

Und­an­far­in 15 ár hafa mikl­ar fram­far­ir orðið í erfðafræði geðrask­ana, einkum með til­komu nýrra aðferða eins og víðtækr­ar erfðameng­is­leit­ar, og eru nú þekkt­ir mörg hundruð al­geng­ir erfðabreyti­leik­ar sem tengd­ir hafa verið áhættu á geðrösk­un­um – meðal ann­ars geðhvörf­um.

Geðhvörf ein­kenn­ast af mikl­um sveifl­um í lund, of­læt­is­ástandi og yf­ir­leitt einnig þung­lynd­is­köst­um. Þau eru mjög arf­geng og eru skil­greind sem al­var­leg geðrösk­un. Henni fylg­ir veru­lega auk­in áhætta á sjálfs­víg­um sé hún ekki meðhöndluð. Þá er brýn þörf á betri lyfj­um til meðferðar á geðhvörf­um, því flest­um þekkt­um geðstill­andi lyfj­um fylgja erfiðar auka­verk­an­ir.

Nú hægt að skýra tölu­verðan hluta geðrask­ana

Um­rædd­ir breyti­leik­ar eru yf­ir­leitt al­geng­ir og eyk­ur hver og einn ein­ung­is lít­il­lega á áhættu á geðhvörf­um. Sé tekið til­lit til þeirra allra í einu er nú orðið hægt að skýra tölu­verðan hluta geðrask­ana í sam­fé­lag­inu. Breyti­leik­ar sem hafa veru­leg áhrif á virkni gena og afurða þeirra eru hins veg­ar yf­ir­leitt sjald­gæf­ir, en vegna mik­illa áhrifa þeirra á eig­in­leika manna, meðal ann­ars áhættu á sjúk­dóm­um, geta þeir gefið mikl­ar upp­lýs­ing­ar um þau líf­fræðilegu ferli sem að baki búa.

Til þess að beisla upp­lýs­ing­arn­ar sem slík­ir breyti­leik­ar búa yfir, gerðu vís­inda­menn Íslenskr­ar erfðagrein­ing­ar álags­grein­ingu fyr­ir geðhvörf. Þeir söfnuðu sam­an öll­um sjald­gæf­um breyti­leik­um sem þóttu lík­leg­ir til þess að eyða virkni hvers gens fyr­ir sig í raðgrein­ing­ar­gögn­um frá Íslandi og breska líf­sýna­bank­an­um (UK bi­obank), og leituðu þeirra gena sem sýndu fylgni milli sam­an­lagðra áhrifa breyti­leik­anna og áhættu á geðhvörf­um.

Einnig var not­ast við niður­stöður svipaðra rann­sókna á veg­um alþjóðlegs rann­sókn­ar­verk­efn­is sem ný­lega stóð fyr­ir slíkri álags­próf­un fyr­ir geðhvörf, Bipol­ar Exomes, til staðfest­ing­ar niðurstaðna og frek­ari rann­sókna.

Rann­sókn­in leiddi í ljós áður óþekkta fylgni milli breyti­leika í tveim­ur genum (HECT­D2 og AKAP11) og geðhvarfa. Grein um rann­sókn­ina birt­ist í vís­inda­tíma­rit­inu Nature Genetics í dag.

Rösk­un á frumu­ferl­um teng­ist áhættu á geðhvörf­um

Breyti­leik­ar í AKAP11-geninu höfðu áður verið tengd­ir geðrofi og geðklofa. AKAP11 er kóðinn fyr­ir akk­er­is­pró­tín, sem hef­ur meðal ann­ars það hlut­verk að skorða stjórn­hluta prótein kínasa A og draga þannig það ensím að ákveðnum frumu­svæðum.

Í HECT­D2-geninu býr kóðinn fyr­ir E3 ubiquit­in lígasa, sem er til­tektar­pró­tín sem merk­ir með end­ur­tekn­um hætti ákveðin prótein með ubiquit­in-hópi, sem mark­ar pró­tín­in til eyðilegg­ing­ar í þar til gerðum frumu­hluta.

Afurðir beggja þess­ara gena koma að frumu­ferl­um sem einnig fela í sér þátt­töku þriðja pró­tíns­ins, GSK3β. Sýnt hef­ur verið fram á að liþíum hindr­ar starf þess próteins, en liþíum er ein­mitt þekkt fyr­ir að milda geðsveifl­ur og liþíum­sölt af ýmsu tagi þykja hvað áhrifa­rík­ust til lyfjameðferðar við geðhvörf­um.

Niður­stöður rann­sókn­ar­inn­ar leiða lík­um að því að rösk­un á ákveðnum frumu­ferl­um teng­ist áhættu á geðhvörf­um og benda á GSK3β og afurðir HECT­D2 og AKAP11 sem áhuga­verð lyfja­mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert