Karlmaður hefur verið ákærður grunaður um hnífstunguárás á Kjalarnesi á nýársnótt.
Tveir hlutu stungusár í árásinni og var annar með lífshættulega áverka.
Hinn grunaði hefur setið í gæsluvarðhaldi í tólf vikur og verður farið fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir honum í dag. Þetta staðfestir Matthea Oddsdóttir aðstoðarsaksóknari við mbl.is.
Í úrskurði Landsréttar frá því janúar voru lýsingar á árásinni.
Kemur þar fram að árásin átti sér stað á gistiheimili og þegar lögreglu bar að garði var einn brotaþoli í anddyri húsnæðisins með stungusár á brjóstkassa.
Annar maður var inni í húsnæðinu og var hann með áverka í andlitinu og skurð á bakinu sem virtist vera eftir hníf.
Þá tjáði íbúi á svæðinu lögreglu að annar karlmaður sem einnig hafði verið stunginn hefði hlaupið til sín og verið með stungusár á bakinu. Sá reyndist lífshættulega slasaður.
Segir í úrskurðinum að þegar lögregla kom á vettvang hafi blóðslettur verið á gangi húsnæðisins og á víð og dreif á gólfinu inni í herberginu. Hnífur var í eldhúsvaskinum sem virtist vera búið að þrífa en einhverjar blóðslettur voru í kringum vaskinn.
Meintur gerandi var handtekinn á vettvangi og kemur fram að hann hafi blásið 1,22 prómíl í áfengismæli.
Að sögn hins grunaða stakk hann tvo karlmenn sem höfðu ráðist að honum og hafi hann því gert það í sjálfsvörn.
Kvað hann að margt fólk hefði verið í teiti í húsnæðinu þegar tveir aðilar sem voru gestkomandi hefðu verið ógnandi og ráðist að honum í eldhúsinu. Þegar einn aðilinn hafi stappað á brjóstkassa hins grunaða hafi hann reiðst og varið sig með hnífi.