Hæstiréttur hefur þyngt dóm yfir karlmanni sem var dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn fyrrverandi stjúpdóttur sinni í fyrra. Hæstiréttur staðfestir dóminn en dæmdi manninn í fimm ára fangelsi.
Maðurinn var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn barni, dóttur þáverandi sambýliskonu sinnar, og stórfellt brot í nánu sambandi á árunum 2016 til 2019. Fram kom í ákæru að hann hefði misnotað freklega yfirburðastöðu sína gagnvart stúlkunni, traust hennar og trúnað sem stjúpfaðir og á alvarlegan hátt ógnað heilsu og velferð hennar með því að hafa í ótilgreindan fjölda skipta með ólögmætri nauðung haft við hana önnur kynferðismök en samræði auk þess að sýna henni klámmyndir og taka mynd af kynfærum hennar.
Með dómi héraðsdóms var maðurinn sýknaður af þeim brotum sem honum voru gefin að sök en með dómi Landsréttar var hann sakfelldur og dæmdur í fangelsi í þrjú ár og sex mánuði.
Maðurinn áfrýjaði niðurstöðunni til Hæstaréttar sem samþykkti að taka málið til meðferðar.
Hæstiréttur telur niðurstöðu hins áfrýjaða dóms hafa byggt á heildstæðu mati á sönnunargögnum málsins, þar á meðal rökstuddu mati á trúverðugleika mannsins og stúlkunnar. Tekið er fram að ekkert hafi komið fram um ágalla á þeirri aðferð sem beitt hafði verið við mat á sönnun á háttsemi mannsins sem hann var sakfelldur fyrir með hinum áfrýjaða dómi.
Þá var ekki fallist á röksemdir hans um að sönnunarbyrði um sekt hans hefði verið aflétt af ákæruvaldinu í andstöðu við 108. gr. laga um meðferð sakamála svo og 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
„Ákærði var með hinum áfrýjaða dómi sakfelldur fyrir nauðgun og önnur kynferðisbrot gegn brotaþola, stórfellt brot í nánu sambandi auk þess að hafa sýnt henni klámmyndir og tekið mynd af kynfærum hennar, svo sem nánar er rakið í ákæru. Þessi niðurstaða, sem reist var á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi, verður sem fyrr greinir ekki endurskoðuð fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Að því gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök,“ segir í niðurstöðu Hæstaréttar.
Manninum var einnig gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins fyrir Hæstarétti samtals 1.326.411 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, 1.004.400 krónur, svo og þóknun réttargæslumanns brotaþola, 124.000 krónur.