Ráðstefnan Auðgandi landbúnaður verður haldin þann 2. apríl á Hilton Reykjavík Nordica.
Í tilkynningu um viðburðinn segir að auðgandi landbúnaður sé leið til að byggja upp heilbrigði jarðvegsins með því að nýta náttúrulega ferla náttúrunnar. Að læra að vinna með náttúrunni, frekar en á móti henni, gagnast okkur öllum, jarðveginum, vatninu, loftinu, plöntunum, dýrunum og fólkinu.
Í tilkynningunni segir einnig að hægt sé að endurnýja heilbrigði jarðvegsins með skilningi á því hvernig landið virkar í gegnum vistkerfisferlana fjóra – orkuflæði, hringrás vatns, hringrás næringarefna og samfélagsvirkni.
Auðgandi landbúnaður sé því leiðin til að kolefnisjafna matvælakerfið og gera landbúnaðinn þolinn fyrir loftslagsáföllum. Það muni ekki gerast nema okkur takist að gera það viðskiptalega aðlaðandi fyrir bændur. Bændur verði að vera í forgangi sem lykilaðilar í baráttu okkar gegn loftslagsbreytingum.
Peter Byck, leikstjóri, framleiðandi og handritshöfundur Carbon Nation, er meðal fyrirlesara málþingsins. Byck gekk nýlega til liðs við Arizona State University, bæði í sjálfbærnideild og Cronkite School of Journalism.
Dr. Allen Williams fer einnig með fyrirlestur, fjölskyldubóndi og stofnfélagi Grass Fed Insights, LLC, Understanding Ag, LLC og Soil Health Academy.
Þá fer Dr. Kris Nichols einnig með fyrirlestur. Hún er leiðtogi í hreyfingunni til að endurnýja jarðveg fyrir hollan mat, fólk og plánetu. Hún er nú stofnandi og aðalvísindamaður KRIS (Knowledge for Regeneration and Innovation in Soils) Systems Education & Consultation og undirverktaki hjá Soil Health Consulting, Inc.
Einnig verða fyrirlesarar frá Íslandi. Það eru prófessor Krístín Vala Ragnarsdóttir, Hulda Björnsdóttir bóndi og Susanne Claudia Möckel Lektor í Landbúnaðarháskólanum.
Í lokin verður pallborð þar sem áhorfendum gefst tækifæri til að spyrja alla fyrirlesara spurninga.
Í fréttatilkynningunni segir að samkvæmt Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) lýsi auðgandi landbúnaður heildrænum landbúnaðarkerfum sem bæti meðal annars vatns- og loftgæði, auki líffræðilegan fjölbreytileika vistkerfa, framleiði næringarríkan mat og geymi kolefni til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga.
Þessi búskaparkerfi séu hönnuð til að vinna í sátt við náttúruna og viðhalda og bæta efnahagslega hagkvæmni.
Tap á frjósömum jarðvegi heimsins og líffræðilegum fjölbreytileika sé banvæn ógn við framtíðarafkomu. Samkvæmt jarðvegsfræðingum einkennist rýrnun á matvælaframboði á minni næringu og tapi á mikilvægum snefilefnum, sem og tjóni á lýðheilsu. Í framtíðinni verði ekki lengur nægileg ræktanleg gróðurmold til að fæða mannkynið.
Auðgandi landbúnaður leiði til heilbrigðs jarðvegs, sem geti framleitt hágæða, næringarrík matvæli á sama tíma og hann bætir land og leiðir að lokum til frjósamra býla og heilbrigðra samfélaga og hagkerfa. Horfa þurfi til búskapar með heildrænum hætti, sem feli í sér vistræna og lífræna búskaparhætti. Með því t.d. að draga úr jarðvegsraski, nota þekjugróður, skiptiræktun, moltugerð, beitarstjórnun og gerð beitilands, til að auka matvælaframleiðslu, auka tekjur til bænda og sérstaklega að bæta efsta hluta jarðvegsins.
Samkvæmt fréttatilkynningunni felst ávinningur þessarar aðferðar meðal annars í minni kostnaði fyrir bændur, minni eldsneytisnotkun, aukins efsta hlutar jarðvegs, aukinni bindingu kolefnis í jarðveginn (loftslagsbæting), jarðvegur verður lífrænni, vatnsbúskapur bætist, plöntur verða heilbrigðari. Aðstæður verði í raun eins og þær voru fyrir 80 árum síðan.