Opnað hefur verið fyrir Íslensk-pólska veforðabók á veraldarvefnum. Í henni eru 54 uppflettiorð ásamt fjölda dæma og orðsambanda sem öll eru þýdd á pólsku.
Þetta segir í tilkynningu frá félags- og húsnæðismálaráðuneytinu.
Segir þar enn fremur að verkefnið sé unnið fyrir fjárframlög frá ráðuneytinu og er veforðabókin gjaldfrjáls og öllum aðgengileg.
„Unnið hefur verið að veforðabókinni undanfarin ár á Árnastofnun og eru þetta því mikil tímamót. Ritstjóri pólska markmálsins er Stanislaw Bartoszek og auk hans unnu að orðabókinni Aleksandra Kieliszewska og Miroslaw Ólafur Ambroziak. Að verkinu komu einnig Emilia Mlynska skólaráðgjafi og Pawel Bartoszek sérfræðingur. Aðalritstjóri orðabókarinnar er Þórdís Úlfarsdóttir og verkefnisstjóri Halldóra Jónsdóttir,“ segir í tilkynningunni.
Þá byggir orðabókin á sama grunni og veforðabækurnar ISLEX, LEXIA og Íslensk nútímamálsorðabók sem Árnastofnun gefur einnig út.
Er framburður allra íslenskra uppflettiorða gefinn með hljóðdæmum og eru tenglar í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls.
Kemur fram í tilkynningunni að Íslensk-pólsk veforðabók sé sú níunda í röð tvímála veforðbóka Árnastofnunar.
„Vonir standa til að orðabókin nýtist sem flestum, ekki síst þeim fjölmörgu íbúum Íslands sem hafa pólsku að móðurmáli.“
Veforðabókina má finna hér.