Segir afstöðu ráðherra lýsa skilningsleysi

Sigrún Birgisdóttir er ráðgjafi hjá Einhverfusamtökunum. Hún segir afstöðu heilbrigðisyfirvalda …
Sigrún Birgisdóttir er ráðgjafi hjá Einhverfusamtökunum. Hún segir afstöðu heilbrigðisyfirvalda lýsa skilningsleysi á þörfum skjólstæðinga Janusar endurhæfingar. Ljósmynd/Aðsend

Heil­brigðisráðuneytið virðist ekki skilja þarf­ir þeirra sem notið hafa end­ur­hæf­ing­ar hjá Jan­usi. Þetta seg­ir Sigrún Birg­is­dótt­ir, ráðgjafi hjá Ein­hverf­u­sam­tök­un­um. 

Í sam­tali við mbl.is vís­ar hún til um­mæla Ölmu Möller heil­brigðisráðherra, sem féllu í Kast­ljósi á mánu­dag um að heil­brigðisráðuneytið greiði ekki fyr­ir starf­send­ur­hæf­ingu þar sem það sjái ein­ung­is um heil­brigðisþjón­ustu.

„Þessi afstaða lýs­ir að okk­ar mati skiln­ings­leysi á þörf­um þessa hóps – það sjá það all­ir að um er að ræða geðheil­brigðisþjón­ustu sem vissu­lega heyr­ir und­ir ráðuneytið. Þessi hóp­ur þarf heil­brigðistengda geðend­ur­hæf­ingu á for­send­um virkni og bættr­ar líðan, ekki endi­lega starfstengda end­ur­hæf­ingu. Þau eru mörg hver ekki kom­in á þann stað og eiga langt í land með að vera fær um að sinna starf­send­ur­hæf­ingu,“ seg­ir Sigrún.

Lýsa þung­um áhyggj­um

Geðend­ur­hæf­ingar­úr­ræðið Jan­us mun loka 1. júní vegna skorts á fjár­magni.

Fagaðilar og aðstand­end­ur skjól­stæðinga hafa lýst þung­um áhyggj­um af fram­hald­inu en óljóst er hvað tek­ur við fyr­ir skjól­stæðinga þegar úrræðinu verður lokað.

Gefið hef­ur verið í skyn að end­ur­hæf­ing verði tryggð fyr­ir hóp­inn en lítið hef­ur verið um raun­veru­leg svör. Því hafa áhyggj­ur af skiln­ings­leysi stjórn­valda á þjón­ustuþörf­um þessa hóps vaxið meðal fagaðila og aðstand­enda.

Ein­hverf­u­sam­tök­in, Geðlækna­fé­lag Íslands, Lands­sam­tök­in Þroska­hjálp, Píeta sam­tök­in og Geðhjálp sendu frá sér sam­eig­in­lega yf­ir­lýs­ingu í dag þar sem meðal ann­ars er ef­ast um hæfi Virk til að sinna þess­um hópi og skorað á rík­is­stjórn­ Kristrún­ar Frosta­dótt­ur að axla ábyrgð á mál­inu og tryggja þá ein­stak­lings­miðuðu þjón­ustu sem hóp­ur­inn þarf. 

„Það er aldrei að fara að ganga upp“

„Í raun­inni ætti þessi hóp­ur ekki að heyra und­ir Virk. Hann þarf miklu meiri þjón­ustu og af öðrum toga. Hann þarf heil­brigðistengda geðþjón­ustu af hendi fag­fólks. Hjá Jan­usi er verið að end­ur­hæfa fólk út í lífið, þjálfa hjá því ákveðna sjálfs­bjarg­ar­viðleitni og getu til þess að fara fram úr á morgn­ana, nær­ast og sjá um sig sjálft. End­ur­hæf­ing­in byrj­ar oft á þeim for­send­um og ég er sann­færð um að þetta hafi forðað mörg­um frá sjálfsskaða eða sjálfs­vígi,“ seg­ir Sigrún.

„Að ætla að gera þá kröfu á þenn­an hóp sem Virk ger­ir á þá end­ur­hæf­ing­arstaði sem þeir semja við, varðandi mæt­ing­ar­skyldu, fram­vindu og annað, er bara galið. Ein­fald­lega vegna þess að marg­ir eru ekki fær­ir um að mæta fyrst um sinn. Sum­ir geta skilað kannski ein­um eða tveim­ur tím­um á viku fyrstu mánuðina.“

Sigrún vís­ar í skýrslu frá fé­lags­málaráðuneyt­inu um starf­semi Virk, sem kom út árið 2022. Þar kem­ur fram að eft­ir að þess­ir staðir fóru að heyra und­ir Virk, í stað þess að vera und­ir fé­lags­málaráðuneyt­inu eins og þeir voru, hafi sá tími sem fólk hef­ur til end­ur­hæf­ing­ar styst og það fjár­magn sem fer til þess­ara staða minnkað.

Þá seg­ir hún meiri kröf­ur gerðar um hraða og skort­ur sé á fjöl­breytni fagaðila sem koma að end­ur­hæf­ing­unni.

„Ég veit að Virk stefn­ir að því að senda hluta af hóp Janus­ar í Hringsjá náms- og starf­send­ur­hæf­ingu, þar sem er mæt­ing­ar­skylda, það er aldrei að fara að ganga upp. Miðað við þetta þá grun­ar mig að það skorti þekk­ingu á þörf­um þessa hóps, þó að öðru sé lýst yfir.

Okk­ar hóp­ur þarf miklu meiri tíma, ein­stak­lings­miðaða og geðheil­brigðismiðaða nálg­un, að öll þjón­usta sé á sama stað og greiðan aðgang að geðlækn­um.“

„Hvort tveggja fái að þró­ast áfram“

Hvað er það sem þið mynduð vilja sjá ger­ast?

„Við vilj­um að nægi­legt fjár­magn sé lagt í Jan­us, eða annað sam­bæri­legt úrræði til að þessi hóp­ur geti áfram fengið þjón­ustu við hæfi. Það vant­ar til­finn­an­lega geðheil­brigðis- og end­ur­hæf­ing­arþjón­ustu fyr­ir þenn­an hóp.“

Sigrún vitn­ar í skýrslu sem heil­brigðisráðuneytið gaf út í októ­ber á síðasta ári um geðheil­brigðisþjón­ustu fyr­ir ein­hverfa 18 ára og eldri. Í þeirri skýrslu komi meðal ann­ars fram að það verði að stofna þjón­ustu og þekk­ing­ar­set­ur fyr­ir þenn­an hóp.

„Ég myndi hrein­lega vilja að þekk­ing­ar og þjón­ustu­set­ur verði stofnað við hliðina á Jan­usi eða sam­bæri­legu úrræði og að hvort tveggja fái að þró­ast áfram.“

Væri það þá óháð öðrum end­ur­hæf­ingar­úr­ræðum?

„Það er kannski allt í lagi að hafa það í tengsl­um við önn­ur úrræði en það þarf að vera fjár­magnað sér­stak­lega. Ein­hverj­ir gætu náð það langt í sinni end­ur­hæf­ingu að þeir gætu hugs­an­lega farið í önn­ur úrræði og út á vinnu­markað í framtíðinni. Þó að hluti þeirra hjá Jan­usi fari ekki á vinnu­markað, þá verður að reyna að koma fólki í virkni og fyr­ir­byggja eins og mögu­legt er að stór hluti þeirra fari á ör­orku.

Það eitt að Virk skuli synja fólki um end­ur­hæf­ingu, meðal ann­ars þess­um hópi, sem þau hafa ít­rekað gert í gegn­um árin, er að valda mikl­um vand­ræðum vegna þess að til að kom­ast á end­ur­hæf­ing­ar­líf­eyri þarftu að vera í virkri end­ur­hæf­ingu. Ef þú ert ekki í virkri end­ur­hæf­ingu þá get­urðu ekki sótt um end­ur­hæf­ing­ar­líf­eyri og get­ur ekki sótt um ör­orku­líf­eyri í fram­hald­inu. Þá ertu í raun á fram­færi for­eldra eða fé­lagsþjón­ust­unn­ar.“

„Það gleym­ist í umræðunni“

Eins og fyrr seg­ir er það mat Sigrún­ar að stór hluti skjól­stæðinga Janus­ar geti endað á ör­orku þrátt fyr­ir end­ur­hæf­ingu. End­ur­hæf­ing­in snú­ist þó um að koma þeim á þann stað að þau geti sinnt dag­legu lífi, farið fram úr á morgn­ana og sinnt eig­in grunnþörf­um. Þar á eft­ir sé mögu­leiki fyr­ir marga þeirra að sinna starf­send­ur­hæf­ingu á borð við Virk, en ekki alla.

Spurð álits á umræðunni í kring­um kostnað rík­is­ins varðandi Jan­us ann­ars veg­ar og ör­orku­bæt­ur hins veg­ar, svar­ar Sigrún:

„Það gleym­ist í umræðunni að ef þau fá ekki þessa end­ur­hæf­ingu, þá er ann­ar hóp­ur að lenda á ör­orku­bót­um líka og það eru oft­ast mæðurn­ar, ef þær eru til staðar, sem þurfa að sinna þess­um hópi. Þær eru nú þegar ansi marg­ar komn­ar í lang­tíma veik­inda­leyfi vegna álags og/​eða á end­ur­hæf­ing­ar­líf­eyri. Ég þekki marg­ar mæður í sam­tök­un­um sem eru komn­ar á ör­orku­líf­eyri útaf álagi vegna aðstæðna barna þeirra. Það er þessi hóp­ur sem gleym­ist og það er ansi dýrt fyr­ir sam­fé­lagið.“

Álagið á for­eldra og fjöl­skyld­ur ung­menna með fjölþætt­an vanda get­ur verið gríðarlegt. Þeir hafa bar­ist fyr­ir þjón­ustu fyr­ir börn­in sín en oft mætt hindr­un­um og lok­un­um í kerf­inu, að sögn Sigrún­ar er upp­lif­un­in eins og hlaupið sé stöðugt á vegg. Þá seg­ir hún marga for­eldra vera að sinna því sem fé­lagsþjón­usta ætti að vera að sinna.

„Þegar for­eldr­ar hafa ít­rekað reynt að tryggja börn­um sín­um nauðsyn­lega aðstoð yfir lang­an tíma er ekki óal­gengt að þeir verði fyr­ir heilsutjóni eða upp­lifi kuln­un. Þetta hef­ur ekki aðeins al­var­leg áhrif á for­eldra held­ur veld­ur einnig mikl­um kostnaði fyr­ir kerfið í heild.“

„Þetta er mjög margþætt“

„Það ligg­ur því við að for­eldr­ar þurfi tvö­fald­ar tekj­ur til að geta haldið börn­un­um sín­um uppi,“ seg­ir Sigrún. Fé­lags­leg­ar bæt­ur séu mikið lægri en ör­orku­bæt­ur.

Ef ung­menn­in lenda á fé­lags­leg­um bót­um frek­ar en ör­orku­bót­um er það mat Sigrún­ar að það geti tal­ist mis­notk­un á sjóðum sveit­ar­fé­lag­anna, „en það er aðeins gert af illri nauðsyn“.

„Það á ekki að vera hlut­verk sveit­ar­fé­lag­anna að halda uppi ung­menn­um sem vitað er að kom­ast ekki inn á at­vinnu­markað. Það er ör­orku­líf­eyri­s­kerfið sem á að halda þeim uppi, ekki fé­lags­bóta­kerfið. Það verður að ein­falda þeim að kom­ast inn í ör­orku­kerfið þegar það á við. Þetta er mjög margþætt.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert