Lögreglan á Suðurlandi vill koma því á framfæri til ferðaþjónustufyrirtækja sem hafa starfsemi á Sólheimajökli að athuga sérstaklega vel aðstæður á og við jökulinn áður en farið er í ferðir á hann með ferðamenn.
Grjótskriða féll á slóða við jökuljaðarinn í morgun þar sem ferðamenn eiga reglulega leið hjá.
Fjöldi fyrirtækja og einyrkja bjóða upp á ferðir upp á jökulinn. Mikil úrkoma hefur verið upp á síðkastið og hefur hluti fyrirtækjanna ákveðið að fara ekki upp á jökulinn.
Í ágúst á síðasta ári varð banaslys á Breiðamerkurjökli þar sem bandarískur ferðamaður lést eftir að hafa orðið undir snjófargi.
Málið var rannsakað af lögreglu en ákvörðun var tekin um að kæra ekki fyrirtækið sem stóð að ferðinni á jökulinn.
Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir ástæðu til að beina varnarorðum til ferðaþjónustufyrirtækja.
„Náttúran er svona og þetta er hættulegur staður að vera á líkt og víða er þar sem vinsælir ferðamannastaðir eru. Mikilvægt er að fara varlega og mikilvægt að ferðaþjónustufyrirtækin kynni sér aðstæður vel áður en farið er á staðinn,“ segir Sveinn Rúnar.