Þúsundir vinnslustarfa í húfi

Landað úr Gullver NS, togara Síldarvinnslunnar, á Seyðisfirði.
Landað úr Gullver NS, togara Síldarvinnslunnar, á Seyðisfirði. Ljósmynd/Ómar Bogason

„Þetta mun að óbreyttu hafa áhrif á störf, fjár­fest­ingu, tekj­ur sveit­ar­fé­lags­ins og sam­fé­lagið allt. Við erum ný­bú­in að ganga frá kjara­samn­ing­um [við kenn­ara] og erum að vinna í áætlana­gerð sam­kvæmt því og þurf­um nú að taka til­lit til þess­ara breyt­inga einnig.“

Þetta seg­ir seg­ir Sig­ur­jón Andrés­son bæj­ar­stjóri Horna­fjarðar um mögu­leg áhrif hækkaðra veiðigjalda.

Daði Már Kristó­fers­son fjár­málaráðherra og Hanna Katrín Friðriks­son at­vinnu­vegaráðherra kynntu í gær frum­varp sem fel­ur í sér tvö­föld­un á inn­heimt­um veiðigjöld­um miðað við álagn­ingu síðasta árs. Full­trú­ar sjáv­ar­út­vegs­sveit­ar­fé­laga sem Morg­un­blaðið hef­ur rætt við lýsa veru­leg­um áhyggj­um af áform­um rík­is­stjórn­ar­inn­ar.

Íris Ró­berts­dótt­ir bæj­ar­stjóri Vest­manna­eyja seg­ir ljóst að veiðigjald sé sér­tæk­ur lands­byggðarskatt­ur og hækk­an­ir áhyggju­efni, en tók fram að hún þyrfti að rýna til­lög­urn­ar bet­ur.

Markaðirn­ir voru einnig áhyggju­full­ir og féll markaðsvirði allra þriggja sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja í Kaup­höll­inni, svo sam­tals fóru um 15 millj­arða króna í súg­inn í gær. Mest lækkaði gengi Brims eða um 4,35%, Síld­ar­vinnsl­an lækkaði um rúm 4% og Ísfé­lagið um 2,35%.

Veg­ur að sam­keppn­is­hæfni

Heiðrún Lind Marteins­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi (SFS), seg­ir ljóst að for­send­ur inn­lendr­ar fisk­vinnslu séu brostn­ar og tel­ur um þrjú þúsund störf í húfi. „Það sem er kallað leiðrétt­ing þýðir ekki annað en að fisk­vinnsla eigi að greiða meira fyr­ir afla til skips,“ seg­ir hún og tel­ur áformin munu gera ís­lenska fisk­vinnslu ósam­keppn­is­hæfa.

Spurð hvort hækk­un veiðigjalds geti ógnað kjara­samn­ing­um sjó­manna svar­ar Heiðrún Lind: „Veru­lega breytt­ar for­send­ur gjald­töku geta sann­ar­lega haft áhrif á kjara­samn­inga sjó­manna. Það eru auðvitað bara skipti á raun­veru­leg­um verðmæt­um sem um er að ræða.“

Óvenjustutt­ur frest­ur

Frum­varps­drög­in voru birt klukk­an eitt síðdeg­is í gær í sam­ráðsgátt stjórn­valda. At­hygli vek­ur að frest­ur til um­sagn­ar er til fimmtu­dags 3. apríl, sem gef­ur alls níu daga til kynn­ing­ar. Regl­ur um und­ir­bún­ing og frá­gang stjórn­ar­frum­varpa og þings­álykt­un­ar­til­lagna gera hins veg­ar ráð fyr­ir að gef­inn sé „hæfi­leg­ur frest­ur“ til um­sagn­ar og er hann sagður „að minnsta kosti tvær til fjór­ar vik­ur“.

Ekki hef­ur verið lýst í grein­ar­gerð frum­varps­ins eða í kynn­ingu þess í sam­ráðsgátt hvers vegna um­sagn­ar­tím­inn er jafnstutt­ur og raun­in er.

Lesa má nán­ar um málið í Morg­un­blaðinu í dag

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert