Bannað að drepa og Dótarímur tilnefndar

Gunnar Helgason, Rán Flygenring, Þórarinn Eldjárn og Þórarinn Már Baldursson.
Gunnar Helgason, Rán Flygenring, Þórarinn Eldjárn og Þórarinn Már Baldursson.

Skáld­sag­an Bannað að drepa eft­ir Gunn­ar Helga­son sem Rán Flygenring mynd­lýsti og ljóðabók­in Dóta­rím­ur eft­ir Þór­ar­in Eld­járn sem Þór­ar­inn Már Bald­urs­son mynd­lýsti eru til­nefnd­ar fyr­ir Íslands hönd til Barna- og ung­linga­bók­mennta­verðlauna Norður­landaráðs 2025. Þetta var til­kynnt í Nor­ræna hús­inu núna klukk­an ell­efu. 

Rán Flygenring og Þórarinn Eldjárn voru mætt í Norræna húsið …
Rán Flygenring og Þór­ar­inn Eld­járn voru mætt í Nor­ræna húsið fyrr í morg­un þar sem til­kynnt var um til­nefn­ing­ar árs­ins. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Í til­kynn­ingu frá Norður­landaráði kem­ur fram að til­nefn­ing­ar árs­ins sýni „hve mikl­um mögu­leik­um mynda­bæk­ur, ung­linga­skáld­sög­ur og mynda­sög­ur búa yfir. Mynda­bæk­ur um stríð og söknuð, skemmti­leg­ar rím­ur og þulur, fyndn­ar og al­var­leg­ar mynda­sög­ur, bók um óheft ADHD, hús fullt af leynd­ar­mál­um og ferð yfir í ann­an heim á gúmmíbát eru nokkr­ar af þeim mörgu sög­um sem er að finna meðal til­nefn­ing­anna í ár.“

Lands­bundn­ar dóm­nefnd­ir til­nefna í ár sam­tals 14 verk til verðlaun­anna, en sam­eig­in­leg nor­ræn dóm­nefnd vel­ur vinn­ings­hafa árs­ins. Til­kynnt verður um vinn­ings­hafa árs­ins 21. októ­ber og verðlaun­in sjálf af­hent í Stokk­hólmi 28. októ­ber í tengsl­um við 77. þing Norður­landaráðs. Verðlauna­haf­inn hlýt­ur verðlauna­grip­inn Norður­ljós og 300 þúsund dansk­ar krón­ur eða tæp­ar 5,8 millj­ón­ir ís­lenskra króna.

Frá Álands­eyj­um er til­nefnd kafla­bók­in Nept­uni­husets hemlig­het eft­ir Liv Wentzel. 

Frá Dan­mörku eru til­nefnd­ar teikni­mynda­sag­an Ørn eft­ir Jeppe Sand­holt og mynda­bók­in Wonga og ræ­vene eft­ir Molly Witt­us.

Frá Finn­landi eru til­nefnd­ar mynda­bæk­urn­ar Chop Chop – en tapp­er jor­d­bos berättel­se eft­ir Lindu Bondestam og Kesän ain­oa kaun­is päi­vä eft­ir Mariu Vilja.

Frá Fær­eyj­um er til­nefnd barna­bók­in Fornt eft­ir El­inu á Rógvi sem Silja Eyst­berg mynd­lýsti. 

Frá Græn­landi er til­nefnd barna­bók­in Pilu eft­ir Uilu Peder­sen sem Sus­anne Jen­sen mynd­lýsti. 

Frá Íslandi eru til­nefnd­ar skáld­sag­an Bannað að drepa eft­ir Gunn­ar Helga­son sem Rán Flygenring mynd­lýsti og ljóðabók­in Dóta­rím­ur eft­ir Þór­ar­inn Eld­járn sem Þór­ar­inn Már Bald­urs­son mynd­lýsti. 

Frá Nor­egi eru til­nefnd­ar ung­linga­bók­in Jenter som meg eft­ir Bibi Fatima Musavi og mynda­bók­in Det som finn­es og det som er borte eft­ir Kaiu Dahle Nyhus. 

Frá sa­míska málsvæðinu er til­nefnd ung­linga­bók­in Emma Di­lemma eft­ir Hanne-Sofie Su­ong­ir sem Nina Marie And­er­sen mynd­lýsti.    

Frá Svíþjóð eru til­nefnd­ar teikni­mynda­sag­an Stin­as jojk eft­ir Mats Jons­son og mynda­bók­in Ingen utom jag eft­ir Söru Lund­berg. 

Sýn­ir djúp­an skiln­ing á hug­ar­heimi barna

Í um­sögn dóm­nefnd­ar um Bannað að drepa seg­ir: „Gunn­ar Helga­son glím­ir við erfið um­fjöll­un­ar­efni í Bannað að drepa, mál­efni sem hvíla þungt á okk­ur öll­um um þess­ar mund­ir: stríðsátök, áföll og missi. Ætla mætti að svo þung umræðuefni myndu bera frá­sögn­ina of­urliði, en ein­stök sagnagleði höf­und­ar og hæfni til að mæta les­end­an­um í augn­hæð gera hon­um kleift að nálg­ast efniviðinn þannig að kátína og inni­leiki verði aldrei langt und­an, og ná þannig teng­ingu við les­and­ann.

Nýr fé­lagi er kom­inn í bekk­inn hans Al­ex­and­ers. Hann heit­ir Vola og kem­ur frá Úkraínu. Dreng­ur­inn er þög­ull og lokaður – eig­in­lega hund­leiðin­leg­ur ef Alex á að vera heiðarleg­ur. Stein­inn tek­ur úr þegar það líður yfir Vola í sundi við að sjá húðflúr á manni í sturt­unni. Það er bara einn staf­ur. Z. Al­veg merki­legt hvað hann er viðkvæm­ur! Átaka­svæði heims­ins teygja sig alla leið inn í sturtu­klefa hjá Al­ex­and­er og vin­um hans. Grafal­var­leg og flók­in mál­efni eru opnuð og skoðuð í gegn­um huga barns með ADHD þar sem þúsund hugs­an­ir þjóta fram, bæði viðeig­andi og alls ekki, þannig að les­and­inn verður beinn þátt­tak­andi í at­b­urðarás­inni.

Gunn­ar flétt­ar átök í Evr­ópu fum­laust sam­an við þann djúp­stæða ótta og þá lík­am­legu þján­ingu sem börn á átaka­svæðunum hafa upp­lifað, og sýn­ir um leið hvaða áhrif slík­ir at­b­urðir geta haft á börn í öðrum lönd­um, í þessu til­viki skóla­börn á Íslandi. Í fjöl­breyttri og hraustri barna­bóka­flóru er dýr­mætt að hafa metnaðarfulla höf­unda sem geta skrifað um al­var­leg mál­efni á þann hátt að börn fræðist um þau en finni um leið til ör­ygg­is, hlýju og mannúðar. Þó að um­fjöll­un­ar­efnið sé al­var­legt ein­kenn­ist bók­in af fjör­ugri frá­sögn sem lifn­ar enn frek­ar við í líf­leg­um mynd­um Rán­ar Flygenring. Eins og í fyrri bók­um höf­und­ar í fram­halds­flokkn­um „ADHD“ er per­sónuflór­an fjöl­breytt og lit­rík, og fram­vind­an spenn­andi.

Bannað að drepa er bók sem sýn­ir djúp­an skiln­ing á hug­ar­heimi barna og virðingu fyr­ir fjöl­breyti­leika mann­lífs­ins. Hún gef­ur ekki auðveld eða ein­föld svör við þeim spurn­ing­um sem brenna á börn­um í því póli­tíska lands­lagi sem ein­kenn­ir heim­inn um þess­ar mund­ir, en opn­ar leið fyr­ir sam­ræður milli full­orðinna og barna.

Gunn­ar Helga­son (f. 1965) er leik­ari, leik­stjóri, dag­skrár­gerðarmaður fyr­ir sjón­varp og rit­höf­und­ur. Hann hef­ur skrifað fjöld­ann all­an af vin­sæl­um barna­bók­um sem hlotið hafa ýmis verðlaun. Gunn­ar hlaut til­nefn­ingu til barna­bóka­verðlauna Astrid Lind­gren árið 2022. Rán Flygenring (f. 1987) er sjálf­stætt starf­andi mynd- og rit­höf­und­ur, listamaður og hönnuður. Hún hef­ur gefið út á ann­an tug bóka og marg­ar þeirra hafa verið þýdd­ar á ýmis tungu­mál. Rán hef­ur hlotið marg­vís­leg verðlaun og viður­kenn­ing­ar fyr­ir verk sín, meðal ann­ars voru henni veitt barna- og ung­linga­bók­mennta­verðlaun Norður­landaráðs árið 2023 fyr­ir bók­ina Eld­gos.“

Tungu­málið er besta leik­fangið

Í um­sögn dóm­nefnd­ar um Dóta­rím­ur seg­ir: „Rímna­flokk­ur­inn Dóta­rím­ur eft­ir Þór­ar­inn Eld­járn sam­an­stend­ur af tíu rím­um fyr­ir börn. Rím­ur eru sér­stakt af­brigði söguljóða sem hef­ur djúpa menn­ing­ar­lega og þjóðfræðilega merk­ingu á Íslandi. Segja má að ís­lensk­ur skáld­skap­ur hafi lifað í því formi um langt skeið, eða frá síðari hluta miðalda fram á nítj­ándu öld­ina.

Í rím­um er oft­ast sögð saga, og hjá Þór­arni eiga barna­leik­föng­in, dótið, sögu­sviðið. Rím­urn­ar tíu eru hver um sig helgaðar ákveðnu leik­fangi eða hlut. Í hverri rímu fær til­tekið dót kynn­ingu eða inn­gang, sem sam­kvæmt hefðinni heit­ir man­söng­ur, og á eft­ir hon­um kem­ur saga eða æv­in­týri í bundnu máli sem teng­ist hverju leik­fangi. Með þess­um hætti kynn­ir Þór­ar­inn les­end­um fjöl­breytt úr­val leik­fanga, allt frá bolta og böngs­um til kubba og vinnu­véla, og skoðar hvernig þessi hlut­ir hafa áhrif á líf og ímynd­un­ar­afl barna. Þar er einnig ríma sem fjall­ar um bæk­ur og und­ir­strik­ar mik­il­vægi lestr­ar og ímynd­un­ar­afls í lífi barna. Lestr­in­um er stillt upp sem mót­vægi við hraðfara afþrey­ingu á skjá, sem skil­ar ekki sömu þrosk­andi upp­lif­un.

Form ljóðsins hvet­ur unga les­end­ur sem eru að læra á töfra tungu­máls­ins til að hægja á lestr­in­um og staldra við orð og mynd­mál. Það er því viðeig­andi að loka­rím­an skuli fjalla um skemmti­leg­asta dótið, sjálfa ís­lensk­una. Tungu­málið er besta leik­fangið, því að það ger­ir okk­ur kleift að skapa allt milli him­ins og jarðar. Íslensk­an, móður­mál höf­und­ar, er þannig í aðal­hlut­verki í lok verks­ins, en mik­il­vægi leiks og skap­andi hugs­un­ar má heim­færa á öll önn­ur tungu­mál.

Þór­ar­inn Már Bald­urs­son hef­ur skapað húm­orísk­an mynd­heim sem dýpk­ar upp­lif­un les­and­ans, vinn­ur fal­lega með rím­un­um og eyk­ur list­rænt gildi verks­ins. Mynd­irn­ar eru bæði litauðugar og hug­mynda­rík­ar, og end­ur­spegla þannig leik­andi eðli ljóðanna.

Bæk­ur Þór­ar­ins Eld­járns hafa ávallt ein­kennst af húm­or og skarp­skyggni og Dóta­rím­ur eru eng­in und­an­tekn­ing frá því. Hann tekst í bók­inni á við hvers­dags­lega hluti úr lífi barna og set­ur þá í sam­hengi við rímna­hefðina með „nýj­um“ og skemmti­leg­um hætti sem vek­ur bæði hlát­ur og íhug­un.

Þór­ar­inn Eld­járn (f. 1949) hef­ur lagt mikið af mörk­um til ís­lenskr­ar bók­mennta­sögu með fjöl­breytt­um skrif­um fyr­ir bæði börn og full­orðna. Hann hef­ur hlotið ýmis verðlaun og viður­kenn­ing­ar, þar á meðal sér­staka viður­kenn­ingu frá Sænsku aka­demí­unni árið 2013. Þór­ar­inn Már Bald­urs­son (f. 1977) er víólu­leik­ari í Sin­fón­íu­hljóm­sveit Íslands, rit­höf­und­ur og mynd­höf­und­ur í hjá­verk­um. Bæk­ur sem hann hef­ur myndskreytt hafa hlotið Barna­bóka­verðlaun Reykja­vík­ur­borg­ar, Fjöru­verðlaun­in og Íslensku barna­bóka­verðlaun­in.“

Upp­fylla þarf strang­ar kröf­ur

Barna- og ung­linga­bók­mennta­verðlaun Norður­landaráðs voru veitt í fyrsta sinn árið 2013 að ósk nor­rænu menn­ing­ar­málaráðherr­anna, sem höfðu um ára­bil viljað efla og vekja at­hygli á barna- og ung­linga­bók­mennt­um á Norður­lönd­um.

Verðlaun­in eru veitt fyr­ir fag­ur­bók­mennta­verk fyr­ir börn og ung­linga sem samið er á einu af nor­rænu tungu­mál­un­um. Verkið get­ur sam­an­staðið af bæði texta og mynd­um og skal upp­fylla strang­ar kröf­ur um bók­mennta­legt og list­rænt gildi.

Þess má geta að all­ar til­nefnd­ar bæk­ur árs­ins eru aðgengi­leg­ar á frum­mál­un­um á bóka­safni Nor­ræna húss­ins. Þar má einnig nálg­ast all­ar vinn­ings­bæk­ur frá upp­hafi.

All­ar nán­ari upp­lýs­ing­ar má nálg­ast á vefn­um hér

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert