Skáldsagan Bannað að drepa eftir Gunnar Helgason sem Rán Flygenring myndlýsti og ljóðabókin Dótarímur eftir Þórarin Eldjárn sem Þórarinn Már Baldursson myndlýsti eru tilnefndar fyrir Íslands hönd til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2025. Þetta var tilkynnt í Norræna húsinu núna klukkan ellefu.
Í tilkynningu frá Norðurlandaráði kemur fram að tilnefningar ársins sýni „hve miklum möguleikum myndabækur, unglingaskáldsögur og myndasögur búa yfir. Myndabækur um stríð og söknuð, skemmtilegar rímur og þulur, fyndnar og alvarlegar myndasögur, bók um óheft ADHD, hús fullt af leyndarmálum og ferð yfir í annan heim á gúmmíbát eru nokkrar af þeim mörgu sögum sem er að finna meðal tilnefninganna í ár.“
Landsbundnar dómnefndir tilnefna í ár samtals 14 verk til verðlaunanna, en sameiginleg norræn dómnefnd velur vinningshafa ársins. Tilkynnt verður um vinningshafa ársins 21. október og verðlaunin sjálf afhent í Stokkhólmi 28. október í tengslum við 77. þing Norðurlandaráðs. Verðlaunahafinn hlýtur verðlaunagripinn Norðurljós og 300 þúsund danskar krónur eða tæpar 5,8 milljónir íslenskra króna.
Frá Álandseyjum er tilnefnd kaflabókin Neptunihusets hemlighet eftir Liv Wentzel.
Frá Danmörku eru tilnefndar teiknimyndasagan Ørn eftir Jeppe Sandholt og myndabókin Wonga og rævene eftir Molly Wittus.
Frá Finnlandi eru tilnefndar myndabækurnar Chop Chop – en tapper jordbos berättelse eftir Lindu Bondestam og Kesän ainoa kaunis päivä eftir Mariu Vilja.
Frá Færeyjum er tilnefnd barnabókin Fornt eftir Elinu á Rógvi sem Silja Eystberg myndlýsti.
Frá Grænlandi er tilnefnd barnabókin Pilu eftir Uilu Pedersen sem Susanne Jensen myndlýsti.
Frá Íslandi eru tilnefndar skáldsagan Bannað að drepa eftir Gunnar Helgason sem Rán Flygenring myndlýsti og ljóðabókin Dótarímur eftir Þórarinn Eldjárn sem Þórarinn Már Baldursson myndlýsti.
Frá Noregi eru tilnefndar unglingabókin Jenter som meg eftir Bibi Fatima Musavi og myndabókin Det som finnes og det som er borte eftir Kaiu Dahle Nyhus.
Frá samíska málsvæðinu er tilnefnd unglingabókin Emma Dilemma eftir Hanne-Sofie Suongir sem Nina Marie Andersen myndlýsti.
Frá Svíþjóð eru tilnefndar teiknimyndasagan Stinas jojk eftir Mats Jonsson og myndabókin Ingen utom jag eftir Söru Lundberg.
Í umsögn dómnefndar um Bannað að drepa segir: „Gunnar Helgason glímir við erfið umfjöllunarefni í Bannað að drepa, málefni sem hvíla þungt á okkur öllum um þessar mundir: stríðsátök, áföll og missi. Ætla mætti að svo þung umræðuefni myndu bera frásögnina ofurliði, en einstök sagnagleði höfundar og hæfni til að mæta lesendanum í augnhæð gera honum kleift að nálgast efniviðinn þannig að kátína og innileiki verði aldrei langt undan, og ná þannig tengingu við lesandann.
Nýr félagi er kominn í bekkinn hans Alexanders. Hann heitir Vola og kemur frá Úkraínu. Drengurinn er þögull og lokaður – eiginlega hundleiðinlegur ef Alex á að vera heiðarlegur. Steininn tekur úr þegar það líður yfir Vola í sundi við að sjá húðflúr á manni í sturtunni. Það er bara einn stafur. Z. Alveg merkilegt hvað hann er viðkvæmur! Átakasvæði heimsins teygja sig alla leið inn í sturtuklefa hjá Alexander og vinum hans. Grafalvarleg og flókin málefni eru opnuð og skoðuð í gegnum huga barns með ADHD þar sem þúsund hugsanir þjóta fram, bæði viðeigandi og alls ekki, þannig að lesandinn verður beinn þátttakandi í atburðarásinni.
Gunnar fléttar átök í Evrópu fumlaust saman við þann djúpstæða ótta og þá líkamlegu þjáningu sem börn á átakasvæðunum hafa upplifað, og sýnir um leið hvaða áhrif slíkir atburðir geta haft á börn í öðrum löndum, í þessu tilviki skólabörn á Íslandi. Í fjölbreyttri og hraustri barnabókaflóru er dýrmætt að hafa metnaðarfulla höfunda sem geta skrifað um alvarleg málefni á þann hátt að börn fræðist um þau en finni um leið til öryggis, hlýju og mannúðar. Þó að umfjöllunarefnið sé alvarlegt einkennist bókin af fjörugri frásögn sem lifnar enn frekar við í líflegum myndum Ránar Flygenring. Eins og í fyrri bókum höfundar í framhaldsflokknum „ADHD“ er persónuflóran fjölbreytt og litrík, og framvindan spennandi.
Bannað að drepa er bók sem sýnir djúpan skilning á hugarheimi barna og virðingu fyrir fjölbreytileika mannlífsins. Hún gefur ekki auðveld eða einföld svör við þeim spurningum sem brenna á börnum í því pólitíska landslagi sem einkennir heiminn um þessar mundir, en opnar leið fyrir samræður milli fullorðinna og barna.
Gunnar Helgason (f. 1965) er leikari, leikstjóri, dagskrárgerðarmaður fyrir sjónvarp og rithöfundur. Hann hefur skrifað fjöldann allan af vinsælum barnabókum sem hlotið hafa ýmis verðlaun. Gunnar hlaut tilnefningu til barnabókaverðlauna Astrid Lindgren árið 2022. Rán Flygenring (f. 1987) er sjálfstætt starfandi mynd- og rithöfundur, listamaður og hönnuður. Hún hefur gefið út á annan tug bóka og margar þeirra hafa verið þýddar á ýmis tungumál. Rán hefur hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín, meðal annars voru henni veitt barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2023 fyrir bókina Eldgos.“
Í umsögn dómnefndar um Dótarímur segir: „Rímnaflokkurinn Dótarímur eftir Þórarinn Eldjárn samanstendur af tíu rímum fyrir börn. Rímur eru sérstakt afbrigði söguljóða sem hefur djúpa menningarlega og þjóðfræðilega merkingu á Íslandi. Segja má að íslenskur skáldskapur hafi lifað í því formi um langt skeið, eða frá síðari hluta miðalda fram á nítjándu öldina.
Í rímum er oftast sögð saga, og hjá Þórarni eiga barnaleikföngin, dótið, sögusviðið. Rímurnar tíu eru hver um sig helgaðar ákveðnu leikfangi eða hlut. Í hverri rímu fær tiltekið dót kynningu eða inngang, sem samkvæmt hefðinni heitir mansöngur, og á eftir honum kemur saga eða ævintýri í bundnu máli sem tengist hverju leikfangi. Með þessum hætti kynnir Þórarinn lesendum fjölbreytt úrval leikfanga, allt frá bolta og böngsum til kubba og vinnuvéla, og skoðar hvernig þessi hlutir hafa áhrif á líf og ímyndunarafl barna. Þar er einnig ríma sem fjallar um bækur og undirstrikar mikilvægi lestrar og ímyndunarafls í lífi barna. Lestrinum er stillt upp sem mótvægi við hraðfara afþreyingu á skjá, sem skilar ekki sömu þroskandi upplifun.
Form ljóðsins hvetur unga lesendur sem eru að læra á töfra tungumálsins til að hægja á lestrinum og staldra við orð og myndmál. Það er því viðeigandi að lokaríman skuli fjalla um skemmtilegasta dótið, sjálfa íslenskuna. Tungumálið er besta leikfangið, því að það gerir okkur kleift að skapa allt milli himins og jarðar. Íslenskan, móðurmál höfundar, er þannig í aðalhlutverki í lok verksins, en mikilvægi leiks og skapandi hugsunar má heimfæra á öll önnur tungumál.
Þórarinn Már Baldursson hefur skapað húmorískan myndheim sem dýpkar upplifun lesandans, vinnur fallega með rímunum og eykur listrænt gildi verksins. Myndirnar eru bæði litauðugar og hugmyndaríkar, og endurspegla þannig leikandi eðli ljóðanna.
Bækur Þórarins Eldjárns hafa ávallt einkennst af húmor og skarpskyggni og Dótarímur eru engin undantekning frá því. Hann tekst í bókinni á við hversdagslega hluti úr lífi barna og setur þá í samhengi við rímnahefðina með „nýjum“ og skemmtilegum hætti sem vekur bæði hlátur og íhugun.
Þórarinn Eldjárn (f. 1949) hefur lagt mikið af mörkum til íslenskrar bókmenntasögu með fjölbreyttum skrifum fyrir bæði börn og fullorðna. Hann hefur hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar, þar á meðal sérstaka viðurkenningu frá Sænsku akademíunni árið 2013. Þórarinn Már Baldursson (f. 1977) er víóluleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands, rithöfundur og myndhöfundur í hjáverkum. Bækur sem hann hefur myndskreytt hafa hlotið Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar, Fjöruverðlaunin og Íslensku barnabókaverðlaunin.“
Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs voru veitt í fyrsta sinn árið 2013 að ósk norrænu menningarmálaráðherranna, sem höfðu um árabil viljað efla og vekja athygli á barna- og unglingabókmenntum á Norðurlöndum.
Verðlaunin eru veitt fyrir fagurbókmenntaverk fyrir börn og unglinga sem samið er á einu af norrænu tungumálunum. Verkið getur samanstaðið af bæði texta og myndum og skal uppfylla strangar kröfur um bókmenntalegt og listrænt gildi.
Þess má geta að allar tilnefndar bækur ársins eru aðgengilegar á frummálunum á bókasafni Norræna hússins. Þar má einnig nálgast allar vinningsbækur frá upphafi.
Allar nánari upplýsingar má nálgast á vefnum hér.