„Ísland er ekki herlaust land“

Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra og þingmaður.
Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra og þingmaður. mbl.is/Karítas

„Ísland er ekki herlaust land,“ sagði Björn Bjarna­son, fyrr­ver­andi dóms­málaráðherra og þingmaður, og varaði við orðræðu um að Ísland væri herlaus þjóð í pall­borðsum­ræðum á ráðstefnu rík­is­lög­reglu­stjóra um ör­ygg­is­mál. 

Víðir Reyn­is­son þingmaður leiddi umræðu um stöðumat sem Karl Stein­ar Vals­son yf­ir­lög­regluþjónn kynnti á ráðstefn­unni. Auk Björns voru Pia Hans­son, for­stöðumaður Alþjóðamála­stofn­un­ar Há­skóla Íslands, og Rann­veig Þóris­dótt­ir, sviðsstjóri þjón­ustu­sviðs hjá embætti rík­is­lög­reglu­stjóra, í pall­borðinu.

Pia hóf mál sitt á því að segja að Ísland væri að slíta barn­skón­um í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um. Tími væri kom­inn á að við tækj­um þess­um mál­um al­var­lega og lagði hún áherslu á meiri þörf á auk­inni grein­ing­ar­getu og rann­sókn­um. Hún sagði Íslend­inga reiða sig al­farið á alþjóðasam­starf.

Þessu sam­sinnti Björn og sagði að hér­lend­is væri nán­ast stöðug viðvera herja frá öðrum ríkj­um og að á Kefla­vík­ur­flug­velli höf­um við öfl­ug­ar varn­ir.

Hann sagði landið hafa tekið ákvörðun um að stofna ekki ís­lensk­an her, þó að við hefðum burði til þess. Um væri að ræða tak­mark­an­ir sem við hefðum sjálf ákveðið.

Björn sagði borg­ara­leg­ar stofn­an­ir fylla tóma­rúmið og ís­lensk stjórn­völd þannig tryggja ör­yggi. Þá geri al­manna­varna­lög ráð fyr­ir að hægt sé að virkja alla þjóðina þegar hætta steðji að.

Hann sagði borg­ara­lega þátt­inn orðinn mun viðameiri en áður vegna gjör­breytts um­hverf­is.

Víðir Reynisson, Pia Hansson, Björn Bjarnason og Rannveig Þórisdóttir.
Víðir Reyn­is­son, Pia Hans­son, Björn Bjarna­son og Rann­veig Þóris­dótt­ir. mbl.is/​Karítas

Mik­il­vægi trausts

Rann­veig benti á að við þyrft­um að líta til þess að ytri áhrif hafi áhrif á hið innra, það er að segja al­menn­ing og þá sér­stak­lega ungt fólk. Hún sagði að hluti þess að styrkja áfallaþol þjóðar­inn­ar sé að styrkja unga fólkið.

Nefndi hún sér til dæm­is hversu mik­il­vægt traust til stjórn­valda í heims­far­aldr­in­um var og hversu miklu þyngri róður­inn hefði verið ef sprottið hefðu upp stór mót­mæli eða álíka.

Þá nefndi Rann­veig einnig traust til lög­reglu. Hún sagði að um 70% sam­fé­lags­ins segðust treysta lög­reglu, en að mark­tækt drægi úr trausti á meðal yngra fólks. Þá auk­ist traust þeirra ekki með aldr­in­um. 

Al­mennt virt­ist gæta sam­mæl­is um hlut­verk lög­reglu og stjórn­valda en ef traust er ekki til staðar og átök verða get­ur staðan breyst mjög hratt í upp­lýs­inga­óreiðu. Stór­ar breyt­ing­ar gætu þannig breytt stöðunni mjög hratt. 

Því væri mik­il­vægt að fjár­festa í innra ör­yggi.

Heim­ild­ir lög­reglu

Talið barst að heim­ild­um lög­reglu og sagði Pia mik­il­vægt að við þyrft­um á aðgengi að sem mest­um upp­lýs­ing­um að halda.

Rann­veig tók und­ir það og sagði erfitt að púsla púsl ef þú ert bara með helm­ing púsl­anna. Þá nefndi hún að lög­regl­an væri að kljást við það að eiga ekki fjár­magn til að kaupa nauðsyn­leg­an búnað.

Björn sagði til­tölu­lega auðvelt fyr­ir okk­ur að koma á álíka lög­gjöf og er á Norður­lönd­um varðandi heim­ild­ir lög­reglu. 

Vanda­málið væri hins veg­ar sam­fé­lags­legt og erfitt að fram­kvæma þar sem marg­ir héldu að aukn­ar heim­ild­ir væru til þess að stunda njósn­ir um ís­lenska borg­ara og vega að þeirra per­sónu­lega frelsi.

Land­hernaður ólík­leg­ur

Spurð út í hætt­una á stríðsátök­um hér­lend­is sam­mælt­ust mæl­end­ur á ráðstefn­unni að afar ólík­legt væri að Rúss­ar myndu ráðast í land­hernað.

Björn sagði að ef Rúss­ar telji að þeir fari illa út úr stríðinu verði Norður­slóðir að búa sig und­ir hefnd­ir. Þeir hafi hins veg­ar ekki burði til land­hernaðar held­ur geri frek­ar árás­ir úr fjar­lægð og beiti aðferðum til að grafa und­an ís­lensku sam­fé­lagi.

Viðmæl­end­urn­ir sam­mælt­ust einnig um að fræða frek­ar en hræða al­menn­ing. Örygg­is­til­finn­ing þjóðar­inn­ar væri góð og vinna ætti með hana. Ótti geti leitt til þess að fólk taki ekki skyn­sam­leg­ar ákv­arðanir.

Viðmælendurnir sammæltust um að fræða frekar en hræða almenning
Viðmæl­end­urn­ir sam­mælt­ust um að fræða frek­ar en hræða al­menn­ing mbl.is/​Karítas

Upp­lýs­ing­ar varðveita traustið

Bryn­dís Har­alds­dótt­ir, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, spurði hvort viðmæl­end­ur teldu okk­ur varðveita „gullið okk­ar“ nægi­lega vel og átti þar við traustið.

Björn sagði mik­il­vægt að vera ekki í nein­um felu­leik um stöðuna og skil­greina þyrfti ræki­lega hlut­verk lyk­il­stofn­anna.

Rann­veig tók und­ir það og sagði það mik­il­væg­ara hvernig hlut­irn­ir væru sagðir held­ur en hvað væri sagt. Hún sagði traust al­menn­ings byggja á því að vita hver viðbrögðin eiga að vera. 

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert