Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, er kominn aftur í veikindaleyfi og Halldóra Fríðar Þorvaldsdóttir, formaður bæjarráðs, mun sinna starfi bæjarstjóra á meðan.
Þetta kemur fram í fundargerð bæjarráðs frá því í morgun.
„Bæjarráð móttekur tilkynningu um veikindaleyfi Kjartans Más Kjartanssonar bæjarstjóra. Samkvæmt læknisvottorði, dags. 13. mars 2025, kemur fram að hann verði óvinnufær með öllu til 1. júní nk.,“ segir í fundargerðinni.
Kjartan hóf störf að nýju 1. febrúar eftir tæplega fimm mánaða veikindaleyfi.
„Eins og fram hefur komið greindist Kjartan Már með krabbamein í blöðruhálskirtli í júlí sl. Hann hóf lyfjameðferð strax en í nóvember hófst geislameðferð sem lauk um miðjan desember og hann svaraði vel. Síðan þá hefur Kjartan Már verið að safna kröftum og gengið vel,“ sagði í tilkynningu á vef bæjarins síðast þegar hann tók aftur til starfa.