Lykt staðfest af neysluvatni og lækkað ph-gildi

AFP

Fyrstu frumniður­stöður benda til að vatn sé ekki óhæft til neyslu í Hvera­gerði en lykt af vatn­inu er staðfest af heil­brigðis­eft­ir­lit­inu. Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu frá bæj­ar­stjóra á vef bæj­ar­ins.

mbl.is greindi frá því fyrr í vik­unni að Hvera­gerðisbæ hafi borist ábend­ing­ar frá íbú­um um breyt­ing­ar á kalda vatn­inu á ákveðnum heim­il­um.

Í umræðu á Face­book-hóp Hver­gerðinga er talað um furðulega og skrítna lykt og skrítið bragð af vatn­inu. Ein­hverj­ir töluðu um að ástand vatns­ins hafi verið óeðli­legt um einn­ar viku skeið.

Hvorki coli né E. coli

Í til­kynn­ingu bæj­ar­stjóra seg­ir að unnið sé eft­ir viðbragðsáætl­un bæj­ar­ins hvað vatns­veitu varðar.

Heil­brigðis­eft­ir­litið hafi tekið fjöl­mörg sýni á svæðinu og miðað við fyrstu upp­lýs­ing­ar mæl­ist hvorki coli né E. coli í neyslu­vatn­inu.

Tekið er fram að á þessu stigi hafi eft­ir­litið ekk­ert í hendi um að vatnið sé óneyslu­hæft út frá gerla­fræðileg­um viðmiðum. Beðið sé eft­ir niður­stöðum og fyrstu vís­bend­ing­um úr öðrum sýn­um. Þær niður­stöður verði birt­ar á vef bæj­ar­ins.

mbl.is/​Sig­urður Bogi

Lækkað ph-gildi mæl­ist í vatn­inu en þó inn­an marka, sem gef­ur samt sem áður ríkt til­efni til að rann­saka málið þar til or­sök­in er ljós. Það er í al­gjör­um for­gangi, að því er fram kem­ur í til­kynn­ing­unni.

„Unnið er öll­um hönd­um að mál­inu með starfs­fólki bæj­ar­ins og fjöl­mörg­um fagaðilum til að greina bet­ur or­sök­ina og málið upp­lýst eft­ir því sem fram­vind­an skýrist.

Við mun­um greina frá niður­stöðum um leið og þær ber­ast hér á vefn­um,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni og und­ir hana rit­ar Pét­ur G. Mark­an bæj­ar­stjóri.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert