„Ófyrirgefanlegur vettvangur“

Birnir Jón Sigurðsson
Birnir Jón Sigurðsson Ljósmynd/Grímur Bjarnason

Alþjóðleg­ur dag­ur leik­list­ar er hald­inn 27. mars ár hvert og eru af því til­efni sam­in ávörp sem hefð er fyr­ir að flutt eru á und­an leik­sýn­ing­um dags­ins. Birn­ir Jón Sig­urðsson, sviðshöf­und­ur og einn stofn­enda Tóma rým­is­ins sem er æf­inga- og til­rauna­r­ým­is í sviðslist­um, samdi ís­lenska ávarpið í ár. Er­lenda ávarpið samdi Theodoros Terzopou­los, en hann er leik­hús­stjóri, kenn­ari, rit­höf­und­ur, stofn­andi og list­rænn stjórn­andi Att­is-leik­húss­ins í Aþenu. Hafliði Arn­gríms­son ís­lenskaði ávarp Terzopou­los. Ávörp­in má lesa hér að neðan. 

Ófyr­ir­gef­an­leg­ur vett­vang­ur

„Ekk­ert er jafn vont og lé­legt leik­hús. Ekk­ert er jafn yf­ir­gengi­lega öm­ur­legt og slæmt sviðsverk. Að sitja í sal og horfa á lík­ama sprikla og segja eitt­hvað sem þú teng­ir ekki við, sem þú ert ósam­mála, sem þú nenn­ir ekki. Þú geng­ur úr saln­um, út und­ir regnþrung­inn dimm­an him­in­inn, þramm­ar á bar­inn og rakk­ar sýn­ing­una í þig, finn­ur til öll lýs­ing­ar­orðin um hversu átak­an­lega hrika­leg upp­lif­un­in var - þetta var glatað, þetta var cr­inge, hvað voru þau eig­in­lega að pæla þegar þau settu þetta á svið, hvernig dett­ur þeim í hug að sviðsetja svona klisj­ur, þetta hefði átt að vera svona, þetta hefði átt að vera hinseg­in, það var þetta sem hefði átt að ger­ast, þetta hér var eini bjarti punkt­ur­inn en svo tókst þeim ein­hvern­veg­inn að klúðra því líka,“ skrif­ar Birn­ir Jón í ávarpi sínu og held­ur síðan áfram: 

„Sviðslist­ir eru ófyr­ir­gef­an­leg­ur vett­vang­ur, það ætti að girða leik­húsið af með lög­reglu­borðum fyr­ir glæp­ina sem það hef­ur framið á at­hygli fólks. Að fá fólk inn í sal, troða því sam­an hliði við hlið í þröng sæti. Sitj­andi í myrkr­inu í lé­legri loftræst­ingu og sum­ir hósta og sum­ir skrjáfa og aðrir snúa sér við og sjá hverj­ir eru í saln­um og sum­ir spjalla og sum­ir setja sím­ann á si­lent og aðrir gleyma að setja sím­ann á si­lent og svo slökkna ljós­in og á svið er sett at­b­urðarás.

Kannski hundrað manns sam­an, kannski fimm hundruð, sem deila þess­ari reynslu, sem fá að hverfa inn í fjöld­ann, upp­lifa í hópi, í húsi, í myrkri. Ork­an, tengsl­in milli flytj­enda á sviðinu, sög­ur, hreyf­ing­ar, tónlist, hljóð, dans. Finna fyr­ir vand­lega hand­mótuðum tím­an­um. Finna öld­ur sam­kennd­ar leggj­ast yfir myrkvaðan sal­inn, finna sæt­in hrist­ast þegar hlátra­sköll­inn kút­velt­ast um bekk­ina. Finna gæsa­húðina seytla niður vegg­ina þegar sann­leik­ur­inn smýg­ur inn í þig á milli lín­anna. Sjá full­komn­un­ina þegar allt kem­ur sam­an í þessu augna­bliki sem næst hvergi ann­arsstaðar en í leik­húsi. Þegar allt geng­ur upp. Þegar augna­blikið verður ei­líft í huga hóps sem sit­ur í myrkvuðum sal, kannski hundrað sam­an, kannski fimm hundruð. Standa upp og klappa, því þetta var eitt af þess­um ein­stak­lega sjald­gæfu kvöld­stund­um. Þar sem þú upp­lifðir hið full­komna and­ar­tak.

Leik­húsið er stofn­un sem sér­hæf­ir sig í því, ímyndið ykk­ur, hand­verks­fólk augna­bliks­ins.

Stund­um mætti heyra saum­nál detta.
Stund­um heyr­ist snöktið tipla á tán­um um sal­inn.
Stund­um er ekki hægt að halda áfram vegna hlát­ur­flóðbylgju.
Stund­um sprett­ur fram sjálf feg­urðin.
Stund­um missa leik­ar­ar and­litið.
Stund­um geng­ur allt upp.

Það ger­ist alls ekki alltaf.
Það ger­ist eig­in­lega aldrei.
En það er líka það dýr­mæt­asta sem ég veit.
Og ég fer í leik­hús til að safna þess­um augna­blik­um.
Til að slíkt verði til þarf dirfsku og hug­rekki.

Krefst hug­rekk­is

Bra­vo á orðstofna í ein­mitt þeim orðum, dirfsku og hug­rekki. Það krefst hug­rekk­is að setja sam­an atriði fyr­ir annað fólk, að standa svo á sviðinu, í bún­ingi, í ljós­um, í aug­liti kannski hundrað manns, kannski fimm­hundruð, og geta sig hvergi falið. Það krefst dirfsku að standa á sviði og reyna að setja sam­an hið full­komna augna­blik, það er óðs manns æði. Það er djarft að dvelja í óviss­unni. Að miða út í myrkrið – því að myrkrið er fullt af stjörn­um. Í hinu full­komna and­ar­taki fang­arðu eina slíka, bra­vo.

En það er ekki allt leik­hús djarft, það er ekki allt leik­hús hug­rakkt. Það verðskulda ekki öll sviðsverk bra­vo.

Ekk­ert er jafn vont og lé­legt leik­hús.
En ekk­ert er jafn und­ur­sam­lega stór­feng­legt og leik­hús þar sem flytj­end­ur og áhorf­end­ur, stund­um kannski hundrað, stund­um kannski fimm­hundruð, fanga sam­an þessa stjörnu. Ganga svo úr saln­um, út und­ir regnþrung­inn dimm­an him­in­inn, full­ir af ljósi.“

Í til­kynn­ingu frá Sviðslista­sam­bandi Íslands kem­ur fram að Birn­ir Jón Sig­urðsson er sviðshöf­und­ur sem legg­ur áherslu á ný, ís­lensk, frum­sam­in verk. Hann var hús­skáld Borg­ar­leik­húss­ins 2022-23 þar sem hann skrifaði verkið Sýslumaður dauðans og vinn­ur nú að end­urupp­setn­ingu sam­sköp­un­ar­verks­ins Sund í Þjóðleik­hús­inu. Hann er einn af stofn­end­um Tóma rým­is­ins, æf­inga- og til­rauna­r­ým­is í sviðslist­um.

Neyðarkall sam­tíma okk­ar

„Get­ur leik­húsið greint neyðarkall sam­tíma okk­ar, ör­vænt­ing­ar­hróp fá­tækra borg­ara, sem eru læst­ir inni í frum­um sýnd­ar­veru­leik­ans, sem skotið hafa rót­um í kæf­andi einka­lífi þeirra? Í heimi tölvu­stýrðrar til­vist­ar í alræðis­kerfi stjórn­un­ar og kúg­un­ar á öll­um sviðum lífs­ins?
Hef­ur leik­húsið áhyggj­ur af vist­fræðilegri tor­tím­ingu, hlýn­un jarðar, gríðarleg­um af­föll­um í fjöl­breyti­leika líf­rík­is­ins, meng­un sjáv­ar, bráðnandi heim­skautaís, aukn­um skógar­eld­um og öfga­kenndu veðri? Get­ur leik­húsið orðið virk­ur hluti af vist­kerfi? Leik­húsið hef­ur fylgst með af­leiðing­um mann­legra at­hafna á móður jörð í lang­an tíma, en það á erfitt með að bregðast við þeim.“ Þannig spyr Theodoros Terzopou­los í ávarpi sínu. 

Theodoros Terzopoulos
Theodoros Terzopou­los Ljós­mynd/​Aðsend

„Hef­ur leik­húsið áhyggj­ur af and­legu ástandi mann­kyns eins og það er að þró­ast á 21. öld­inni, þar sem fólki er stjórnað af póli­tísk­um og efna­hags­leg­um hags­mun­um, net­miðlum og skoðana­mynd­andi net­fyr­ir­tækj­um? Þar sem sam­fé­lags­miðlar, eins mikið og þeir auðvelda lífið, mynda ör­ugga fjar­lægð í sam­skipt­um við aðra? Hugs­an­ir okk­ar og at­hafn­ir eru mengaðar víðtæk­um ótta við aðra sem eru öðru­vísi eða fram­andi.

Get­ur leik­húsið þjónað sem rann­sókn­ar­stofa sam­líf­is fjöl­breyti­leik­ans, án þess að meðtaka blæðandi áfall­a­streitu?

Áfall­a­streit­an skor­ar á okk­ur að end­ur­gera goðsögn­ina sem Heiner Müller orðaði: „Goðsögn­in er afl­gjafi, vél sem unnt er að tengja aðrar marg­vís­leg­ar vél­ar við. Hún gef­ur orku þar til vax­andi orku­magnið spreng­ir menn­ing­ar­sviðið.“ Ég myndi bæta við velli villi­mennsk­unn­ar.

Geta kast­ljós leik­húss­ins lýst upp fé­lags­leg áföll í stað þess að varpa mis­vís­andi ljósi á sjálft sig?

Spurn­ing­ar án fullnaðarsvara, því leik­hús er til og mun lifa áfram, þökk sé spurn­ing­um sem enn er ósvarað.

Spurn­ing­ar sem Díóný­sos varpaði fram þegar hann fór um fæðing­arstað sinn, leik­svið hins forna leik­húss, og hélt áfram þögl­um flótta sín­um um stríðshrjáð landsvæði, á leik­list­ar­deg­in­um þetta árið.

Sár­vant­ar nýtt frá­sagn­ar­form

Horf­um í augu Dýonísus­ar, af­kvæm­is Seifs og Semelu, sem fædd­ist tvisvar, horf­um í aug­un á þess­um guði leik­list­ar og goðsagna sem sam­ein­ar fortíð, nútíð og framtíð, hold­gerv­ings reik­andi sjálfs­mynd­ar, konu og karls, reiði og gæsku, guðs og dýrs sem er á mörk­um vit­firring­ar og skyn­semi, reglu og glundroða, línu­dans­ari á mörk­um lífs og dauða.
Díóný­sos varp­ar fram grund­vall­ar­spurn­ingu til­vist­ar­inn­ar: „Um hvað snýst þetta allt sam­an?“ Spurn­ing sem man­ar skap­andi fólk til dýpri rann­sókn­ar á rót­um goðsagna og margs kyns vídd­um lífs­gát­unn­ar.

Okk­ur sár­vant­ar nýtt frá­sagn­ar­form, sem miðar að því að rækta minnið og móta nýja siðferðilega og póli­tíska ábyrgð, til að kom­ast frá marg­slungnu ein­ræði „myrkra miðalda“ sam­tím­ans.“

Þróað eig­in leik­húsaðferðir

Í til­kynn­ingu frá Sviðslista­sam­bandi Íslands kem­ur fram að Theodoros Terzopou­los er leik­hús­stjóri, kenn­ari, rit­höf­und­ur, stofn­andi og list­rænn stjórn­andi Att­is-leik­húss­ins í Aþenu. Formaður alþjóðanefnd­ar leik­húsólymp­íu­leik­anna (Theatre Olympics) sem hann stofnaði árið 1994.

Terzopou­los fædd­ist í Norður-Grikklandi árið 1947 og lærði leik­list í Aþenu. Frá 1972 til 1976 var hann meist­ara­nemi og aðstoðarmaður við Berl­iner En­semble. Eft­ir að hann sneri aft­ur til Grikk­lands starfaði hann sem for­stöðumaður leik­list­ar­skól­ans í Þessalón­íku.

Árið 1985 stofnaði hann leik­hóp­inn Att­is sem hann hef­ur stjórnað síðan. Hann var list­rænn stjórn­andi alþjóðlegra þinga um forna leik­list í Delp­hi 1985 til 1988. Hann stofnaði ásamt fleir­um Alþjóðastofn­un Miðjarðar­hafs­leik­húsa (In­ternati­onal Institu­te for Med­iterra­ne­an Theatre) og hef­ur verið formaður grísku nefnd­ar henn­ar síðan 1991, auk þess að vera for­seti alþjóðanefnd­ar leik­húsólymp­íu­leik­anna síðan árið 1993. Hann var einn list­rænna stjórn­enda hátíða leik­húsólymp­íu­leik­anna í Delp­hi, Shizu­oka, Moskvu, Ist­an­búl, Seúl og Pek­ing.

Frá því seint á átt­unda ára­tugn­um hef­ur hann þróað sín­ar eig­in leik­húsaðferðir. Vinnu­stof­ur tengd­ar vinnuaðferðum Terzopou­los­ar fara fram um all­an heim. Sem leik­stjóri hef­ur hann sviðsett forn­grísk leik­rit, óper­ur og verk eft­ir mik­il­væga evr­ópska sam­tíma­höf­unda, meðal ann­ars í leik­hús­um í Rússlandi, Banda­ríkj­un­um, Kína, Ítal­íu, Taív­an og Þýskalandi. Hann hef­ur hlotið ótal alþjóðleg verðlaun og viður­kenn­ing­ar. Theodoros Terzopou­los býr í Aþenu.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert