Strætó skilaði í fyrra hagnaði í fyrsta sinn síðan 2017. Farþegum Strætó fækkaði samt nokkuð milli ára meðan seinkunum fjölgaði. Viðsnúningurinn skýrist aðallega af auknum framlögum frá hinu opinbera, hækkun fargjalda og lækkun launakostnaðar.
Hagnaður Strætó bs. nam 204 milljónum árið 2024. Árið 2023 nam tap Strætó 374 milljónum en samanlagt tap árin 2018-2023 nemur tæplega 2,3 milljörðum kr.
„Við sjáum ekkert annað en bjarta tíma fram undan,“ segir Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, í samtali við mbl.is en þegar hann er spurður hvort þessi þróun í rekstrinum muni halda áfram bendir hann á að miklar breytingar fylgi borgarlínunni, sem nú er verið að framkvæma. „Ég hugsa að Strætó verði ekki lengi til í þeirri mynd sem það er í dag.“
Í ársreikningi byggðasamlagsins segir að rekstrarbatinn skýrist aðallega af auknum rekstrartekjum, sem hækkuðu um 774 m.kr. en þær séu aðallega til komnar vegna hærri framlaga frá eigendum Strætó (+389 m.kr.), hækkun fargjalda (+138 m.kr.) og lækkun launakostnaðar (-229 m.kr.).
Þegar Samgöngusáttmálinn var uppfærður í ágúst jukust fjárframlög hins opinbera til Strætó en byggðasamlagið er í eigu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu: Reykjavíkur (60,30%), Kópavogs (14,60%), Hafnarfjarðar (12,50%), Garðabæjar (6,24%), Mosfellsbæjar (4,07%) og Seltjarnarness (2,29%).
Byggðasamlagið hefur að undanförnu hækkað gjaldskrá sína tvisvar á ári í samræmi við verðbólgu. Í byrjun 2024 kostaði fullorðinsmiði 570 kr. en hann kostaði síðan 650 kr. í lok ársins.
Í dag kostar fullorðinsmiði 670 kr. en Jóhannes segir að mögulega séu einhverjir liðir gjaldskrárinnar komnir að þolmörkum og útilokar ekki að látið verði af frekari hækkunum. „En við eigum eftir að taka samtalið í vor hvort það verði hækkun eða hvort við förum í aðra breytingu á gjaldskrá,“ segir Jóhannes.
Lækkun launakostnaðar skýrist aðallega af óreglulegum gjaldfærslum frá 2023.
Þrátt fyrir þessar jákvæðu breytingar er aldur vagna Strætó of hár sem veldur auknum rekstrarkostnaði, að því er fram kemur í ársreikningnum.
Seinkanir jukust einnig í leiðakerfi Strætós á höfuðborgarsvæðinu í fyrra og hefur farþegum fækkað fyrir vikið. Stundvísi vagnanna var mæld síðasta nóvember og kom í ljós að leið 2 væri sein í helmingi tilfella og margar aðrar fjölfarnar leiðir seinar í þriðjungi tilfella.
„Á árinu í fyrra vorum við mjög sein. Umferðin hafði veruleg áhrif á okkur þannig að við vorum ekki að ná sama farþegafjölda í fyrra og í hitt í fyrra,“ útskýrir Jóhannes og tekur fram að árið 2024 hafi verið 12 milljónir innstiga í vagna, samanborið við 12,6 milljónir árið 2023.
Þó er gert ráð fyrir fjölgun innstiga í ár, samhliða þjónustuaukningu í haust.
Jóhannes segist sjá „duglega aukningu“ í notkun snertilausra greiðslna, sem voru nýlega innleiddar. „En við eigum eftir að greina hvort að á móti minnki peningar í baukum,“ bætir hann við en Strætó stefnir á að hætta að taka við reiðufé í sumar.
Í byrjun árs hóf Strætó að sekta þá farþega sem greiða ekki fargjald í strætisvagna. Auk þess voru skerðingar frá tímum kórónuveirunnar loksins dregnar til baka í janúar. Ástæða þess að ekki var hægt að koma þjónustunni fyrr í sama horf og fyrir faraldur var fjárhagsstaða sveitarfélaganna að sögn Jóhannesar.