„Við stefnum að því að ferma í Grindavíkurkirkju á pálmasunnudag,“ segir séra Elínborg Gísladóttir, prestur Grindavíkurkirkju, og segir að 14-15 börn hafi sóst eftir að fermast í sínum heimabæ.
„Við munum líka vera með passíulestur á föstudaginn langa og messu á páskadag og svo stefnum við á hátíðarmessu á sjómannadaginn, sem er núna 1. júní, en í fyrra urðum við að hafa athöfnina í Vídalínskirkju í Garðabæ.“
Elínborg segir að þau séu í sambandi við Almannavarnir, sem viti af öllum athöfnum sem fara fram í Grindavíkurkirkju og um áætlaðan mannfjölda í hvert skipti. „Svo höfum við alltaf haft plan B, ef það skyldi fara að gjósa, svo hver athöfn geti farið fram, en sem betur fer höfum við ekki þurft að grípa til þess hingað til. Ég er að skoða möguleikana fyrir fermingarnar ef eitthvað gerist núna, en ég er þess fullviss að ekkert muni gerast.“
Grindvíkingar sækjast talsvert eftir því að hafa stóratburði í sinni kirkju og nýlega var skírn í kirkjunni. „Við vorum að skíra um daginn og vorum með veislu í safnaðarheimilinu,“ segir Elínborg sem segir Grindvíkinga hafa sterkar taugar til sinnar kirkju.
„Kirkjan stendur mjög sterkum stoðum í Grindavík og Grindvíkingar hafa alltaf hugsað vel um sína kirkju. Það er búið að gera allt hreint og fínt í kringum kirkjuna og skanna allt undir kirkjunni og það er allt í lagi með allt.“
Þá segir hún að mikið hafi verið um jarðarfarir frá kirkjunni. „Flestir sem eiga að hvíla í garðinum í Grindavík, láta jarða sig frá Grindavíkurkirkju,“ segir hún og bætir við að samfélagið í Grindavík hafi alltaf verið sterkt.
„Ég held að við séum orðin svolítið þreytt á þessari umræðu um hvort það fari að gjósa eða ekki. Gosið kemur bara þegar það kemur og við verðum að halda áfram. En það gefur okkur von um viðreisn samfélagsins hérna að geta haldið upp á stóru stundirnar í okkar kirkju í Grindavík.“