Fuglaverndarfélag Íslands, Fuglavernd, hefur kært til lögreglunnar á Norðurlandi eystra framkvæmdir sem að sögn fólu í sér umtalsvert rask á mólendi og varplendi fugla við Húsavík.
Framkvæmdirnar fóru fram sumarið 2024 og segir í tilkynningu frá samtökunum að jarðvegur hafi verið unninn og trjáplöntur gróðursettar í tengslum við skógrækt til kolefnisbindingar. Þá er sagt að framkvæmdirnar hafi farið fram á varptíma fugla.
Kæran beinist að meintu broti á náttúruverndarlögum nr. 60/2013 og villidýralögum nr. 64/1994 en mögulega hafa lög nr. 55/2013 um velferð dýra einnig verið brotin.
„Í kærunni kemur fram að framkvæmdin hafi raskað mikilvægum varpsvæðum fuglategunda, svo sem heiðlóu og spóa, sem njóta verndar samkvæmt lögum og eru auk þess ábyrgðartegundir Íslands. Framkvæmdir fóru mögulega fram án nauðsynlegs mats eða leyfis samkvæmt lögum, en mál Yggdrasils og fleiri aðila vegna framkvæmda á þremur svæðum á tveimur jörðum í Norðurþingi er nú til meðferðar hjá Skipulagsstofnun, sem og aðkoma sveitarfélagsins í því sambandi,“ segir í tilkynningu.
Segir að málið hafi vakið umræðu um álitamál í tengslum við skógrækt, kolefnisbindingu, náttúruvernd og stjórnsýslu sveitarfélaga. Fuglavernd leggur áherslu á að tryggt sé að framkvæmdaaðilar og leyfisveitendur fari að lögum og virði verndarsjónarmið þegar ráðist er í aðgerðir sem hafa neikvæð áhrif á náttúruleg vistkerfi,“ segir í tilkynningu.