Jón Gnarr, þingmaður Viðreisnar, tók vakt á meðferðarheimilinu Stuðlum síðdegis í gær í þeim tilgangi að dýpka þekkinguna á starfinu sem þar er unnið. Hann heimsótti Stuðla einnig í kosningabaráttunni síðastliðið haust og hefur rætt við starfsfólk um þá erfiðu stöðu sem skapast hefur vegna úrræða- og aðstöðuleysis.
Í samtali við mbl.is segir hann það hafa verið lærdómsríkt að hafa fengið að fylgjast með starfseminni, en það sem stendur upp úr eftir vaktina er hvað starfsfólkið brennur fyrir því sem það er að gera.
„Ótrúlega flottur hópur af starfsfólki sem elur önn og fyrir þessum krökkum og brennur fyrir þeirra hag,“ segir Jón. Starfsfólkið reyni að gera sitt besta í erfiðum aðstæðum.
Erfitt ástand hefur verið á Stuðlum síðustu misseri en eftir brunann í október, þar sem 17 ára drengur lést, hefur ekki verið boðið upp á hefðbundna meðferðar- og greiningarvistun, líkt og áður. Aðeins eru fjögur pláss á meðferðardeildinni eins og er og hafa þau aðallega verið nýtt fyrir allra þyngstu tilfellin, þar á meðal gæsluvarðhald og afplánun.
Þá hefur drengur verið vistaður þar síðustu mánuði, samkvæmt úrskurði, sem á í raun ekki heima með allra erfiðasta hópnum. En þar sem ekkert langtímaúrræði hefur verið í boði fyrir drengi síðasta árið, eru Stuðlar eina skjólið sem honum býðst.
Endurbætur standa nú yfir á neyðarvistun Stuðla, sem gjöreyðilagðist í brunanum, en stúka þurfti af hluta af meðferðardeildinni undir neyðarvistun, og minnkaði deildin sem því nemur.
Innanbúðamaður á Stuðlum sagði í samtali við mbl.is fyrr í þessum mánuði að það færi í raun engin meðferð fram á Stuðlum lengur. Aðeins væri um að ræða geymslustað. Fíkniefni eigi greiða leið þangað inn og reglulega finnist hnífar inni á herbergjum.
„Við erum ekkert að betra þessa stráka. Við erum að gera okkar besta til að halda friðinn og passa að þeir slasi ekki sjálfa sig eða aðra. En það er engin betrun í þessu. Þetta er bara geymsla. Það er staðreyndin,“ sagði innanbúðamaðurinn í samtali við mbl.is.
„Það sem manni verður svo ljóst er að við getum ekki bara blandað öllum saman. Við verðum að vera með fleiri minni úrræði frekar en eitt stórt, því mörg af þessum krökkum eiga enga samleið og hafa jafnvel ekkert gott af samneyti hvert við annað,“ segir Jón.
Hann telur að það neyðarástand sem ríkir í málefnum barna með fjölþættan barna, að einhverju leyti hafa skapast vegna innviðaskuldar frá hruni.
„Í bankahruninu var svo mikið af velferðarþjónustu sem var lögð niður og ákveðin kerfi sem langan tíma hafði tekið að byggja upp, voru kannski ekki fullkomin, en virkuðu,“ segir Jón.
„Síðan hefur okkur ekki gengið nógu vel að byggja þetta upp aftur og erum komin með mikinn uppsafnaðan vanda. Þá gerist það líka að allir benda hver á annan. Ég held að það sé líka mikilvægt að það fari að eiga sér stað skýrt samtal á milli ráðuneytanna. Þetta er ekki bara mennta- og barnamálaráðuneytið og velferðaráðuneytið, þetta er líka dómsmálaráðneytið.“
Bragi Guðbrandsson, fulltrúi í barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna og fyrrverandi forstjóri Barnaverndarstofu, sagði í samtali við mbl.is fyrr í vikunni að staðan í málefnum barna með fíkni- og hegðunarvanda, væri að einhverju leyti sambærileg og fyrir 30 árum. Þá hafi verið ráðist í samstillt átak og þar á meðal komið á fót sjö meðferðarúrræðum á fimm árum.
Þannig hafi verið hægt að komast fyrir vandann og um árabil var hægt að anna eftirspurn eftir meðferð. Staðan hafi hins vegar breyst hratt til hins verra síðustu ár.
Jón vonast til þess að Guðmundur Ingi Kristinsson, nýr mennta- og barnamálaráðherra, fái tækifæri til að setja sig vel inn í þennan málaflokk þannig hægt verði að ráðast í verkefnin sem fyrst.
„Mér finnst þetta vera brýnasta verkefnamál þessa ráðuneytis. Að byrja að innleiða eitthvað af þessum úrræðum sem stungið er upp á,” segir Jón og vísar þar í tillögur stýrihóps um fyrirkomulag þjónustu við börn með fjölþættan vanda, frá árinu 2023. Þar komu fram 14 tillögur að meðferðarúrræðum, en ekkert af þeim hefur orðið að veruleika.
Næst á dagskrá hjá Jóni er að kynna sér betur aðstæður í Gunnarsholti þar sem stendur til að opna aftur langtímameðferðarheimilið Lækjarbakka næsta haust. Heimilinu var lokað í apríl á síðasta ári vegna myglu en gert er ráð fyrir að endurbætur fari að hefjast í Gunnarsholti. Jón vill skoða það hvort hægt sé að flýta ferlinu með því að setja aukið fjármagn í verkefnið.