Um tíu jarðskjálftar mældust við kvikuganginn á Sundhnúkagígaröðinni og á svæði nær Grindavík í nótt að sögn náttúruvársérfræðings á Veðurstofunni.
Sigríður Kristjánsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni, segir við mbl.is að næturvaktin hafi verið á tánum fyrri part nætur enda hafi skjálftavirknin verið meiri heldur en síðustu daga.
„Það var nokkur skjálftavirkni skömmu eftir miðnætti en hún datt niður um þrjúleytið í nótt,“ segir Sigríður.
Hún segir áfram sé reiknað með að það geti byrjað að gjósa hvenær sem er.
„Það er ómögulegt að segja til um hvenær það dregur til tíðinda. Það getur byrjað að gjósa á næstu klukkstundum eða á næstu dögum,“ segir hún.
Rúmmál kviku undir Svartsengi aldrei verið meira frá því að goshrinan hófst í desember 2023 en sjöunda gosinu í gígaröðinni frá því í desember 2023 lauk 9. desember.
„Kvikusöfnun heldur áfram en það hefur hægst á landrisinu síðustu vikurnar. Það er spurning hvað gerist þegar þetta fer af stað. Það er alveg mögulegt að gosið geti orðið öflugra en áður en við vitum aldrei hvað jörðin gerir. Við fylgjumst bara vel með öllum okkar mælum og minnum á að það geti byrjað að gjósa með mjög skömmum fyrirvara og það er eitthvað sem við búumst við,“ segir Sigríður.