Stærsti hluti losunar gróðurhúsategunda í Reykjavík kemur frá byggingariðnaðinum. Að sögn Björns Traustasonar, framkvæmdastjóra Bjargs, er smækkun íbúða einfaldasta aðgerðin til að lækka gróðurhúsaáhrif og kolefnisspor.
„Nú þegar eru íbúðir Bjargs með töluvert lægra kolefnisspor heldur en svokölluð viðmiðunaríbúð, á fermetra. Ef við bætum við að íbúðirnar okkar eru 15-20% minni en meðal íbúð, þá er kolefnisspor á íbúð hjá Bjargi um 50% lægra heldur en á viðmiðunaríbúð,“ sagði Björn á kynningarfundi um húsnæðismál.
Borgarstjóri Reykjavíkur stóð fyrir fundinum í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag. Fundurinn bar yfirskriftina Byggjum borg fyrir fólk.
Þannig hefur stærð íbúðar líka áhrif á kolefnislosun. Ætlun Bjargs er að halda áfram vegferðinni með þeim aðferðum sem til eru í dag, umhverfisvænni steypu, minnkuðu efnismagni í burði og straumlínulögun húsanna.
Bjarg byggir smærri íbúðir, „og smærri íbúð þýðir að sjálfsögðu lægri leiga“.
Að sögn Björns hafa smærri íbúðir þó fleiri kosti. Stærsti hluti losunar gróðurhúsategunda í Reykjavík er byggingariðnaðurinn. Einfaldasta aðgerðin til að lækka gróðurhúsaáhrifin og kolefnissporið er að smækka íbúðirnar.
Leiguverð Bjargs sé að meðaltali 100 þúsund krónum lægra en á almenna markaðnum. Auk þess sem húsnæðisöryggi hafi verið tryggt hjá leigutökum, þá hafi ráðstöfunartekjur þeirra einnig aukist um 12 hundruð þúsund á ári. Rík ánægja sé meðal leigutaka með íbúðir Bjargs, að undanskildum bílastæðamálum.
„Við erum að meðaltali með 0,7 stæði á íbúð og þetta er eitt helsta umkvörtunarefni frá okkar leigutökum,“ sagði Björn.
„Við erum líka að reyna í allri okkar hönnun að hámarka íbúðarfermetra í öllum okkar húsum,“ segir Björn. Það sé gert með því að lágmarka fjölda stigahúsa, sem eru að hans sögn mjög dýr í byggingu. Þá segir hann Bjarg almennt ekki vera með kjallara undir húsum, heldur séu geymslur settar upp á hæðir og þannig losnað við geymsluganga og allt sem þeim fylgir.
„Þannig að flestir fermetrar sem við byggjum eru að fara inn í íbúðarrými leigutaka og það skiptir líka rosalega miklu máli.“
Þá er áhersla lögð á vellíðan íbúa, meðal annars með loftgæðum, dagsbirtu og hljóðvist. Til að mynda var hljóðhönnuður fenginn til að tryggja góða hljóðvist í íbúahúsnæði Bjargs í Safamýri.
Bjarg er leigufélag án hagnaðarsjónarmiða. Allar tekjur Bjargs eru nýttar til reksturs og uppbyggingar félagsins. Þannig megi greiða niður öll lán og stofnframlög vegna íbúða Bjargs á 50-60 árum. Eftir þann tíma verði félagið orðið sjálfbært sem þýði að félagið geti haldið áfram uppbyggingu án aðkomu ríkis og sveitarfélaga.
„Þetta er sú staða sem sambærileg félög eru í á Norðurlöndunum, sem eru búin að vera starfandi lengur en við,“ segir Björn.
Lykillinn að uppbyggingu Bjargs er samkomulag við Reykjavíkurborg frá árinu 2016, sem fólst í því að borgin lofaði lóðum fyrir 1.000 íbúðir. Nú hafa verið byggðar um 800 íbúðir í Reykjavík og 1.200 í heildina.
Tæplega 4.000 manns eru á biðlista, „þannig að verkefninu er alls ekki lokið“.