Í kjallara verslunarinnar Epal á Laugavegi er nú sýning Skrípó, en þar hitti blaðamaður þá Guðjón Viðarsson Scheving og Kára Þór Arnarsson í vikunni þar sem þeir voru í óða önn að hengja upp stór og litskrúðug málverk sem þeir vinna í samvinnu. Á málverkunum eru alls kyns fígúrur: manneskjur, dýr og skrímsli svo eitthvað sé nefnt. Strákarnir hafa teiknað skrípamyndir allt frá æsku en eru nú að taka list sína skrefinu lengra.
„Við höfum verið vinir frá því í leikskóla og höfum alltaf haft gaman af því að teikna og skapa saman,“ segir Guðjón.
„Við þróuðum svo með okkur stíl að teikna saman og vorum oft að skiptast á blöðum þar sem annar teiknaði kannski augu og svo hinn nef og svo var skipt aftur. Þannig teiknuðum við alls kyns fígúrur og erum í raun að nota þá aðferð enn í dag,“ segir Kári.
„Þetta gerðum við til svona þrettán ára aldurs og þá tóku við íþróttir og önnur áhugamál, en svo vorum við reyndar saman á myndlistarbraut í FG,“ segir Guðjón.
Strákarnir eru með vinnustofu í Garðabæ og eru alltaf með að minnsta kosti tvö verk í vinnslu í einu.
„Oftast byrjum við á að teikna form á strigana og fyllum svo upp í formin til dæmis með andlitum,“ segir Kári.
„Já, og oft gerum við skrítin form til að ögra hvor öðrum,“ segir Guðjón en til verksins nota þeir akrýlmálningu og akrýlpenna.
Fjölmargar klukkustundir liggja að baki einu málverki. Á bak við stærstu myndirnar liggja yfir hundrað klukkutímar, en strákarnir hafa málað á milli fimmtíu og sextíu verk.
„Okkur hefur gengið vel að selja og það er alltaf eitthvað í pípunum,“ segir Guðjón, en strákarnir selja í gegnum Instagram-síðuna skripo_art og á heimasíðunni skripo.com. Stundum fá þeir sérpantanir og geta þá viðskiptavinir komið með óskir um til dæmis liti og fígúrur.
„Við erum þakklátir Epal fyrir að leyfa okkur að vera með sýningu hér,“ segir Kári, en sýningin verður opin til 25. apríl. Einnig selja þeir tölusettar eftirprentanir sem verða til í takmörkuðu upplagi.
„Það er húmor í myndunum og við erum mjög frjálsir í þessu. Það er létt yfir þessum myndum,“ segir Guðjón.
Ítarlegra viðtal er við Kára og Guðjón í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.