Tveir piltar lágu enn á gjörgæslu Landspítalans í gærkvöldi eftir alvarlegt umferðarslys sem varð á Siglufjarðarvegi, við Grafará sunnan Hofsóss, á föstudagskvöld.
Þetta segir Vilhjálmur Stefánsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra, í samtali við mbl.is.
Piltarnir fjórir eru þó komnir úr lífshættu.
Fjórir piltar á aldrinum sautján til átján ára voru fluttir á gjörgæslu með þyrlu Landhelgisgæslunnar og með sjúkraflugvél eftir að bifreið sem þeir voru í lenti utan vegar með þeim afleiðingum að ökumaður og þrír farþegar slösuðust.
Vilhjálmur Stefánsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra, segist ekki hafa fengið upplýsingar í dag um líðan piltanna.
Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra á Sauðárkróki hefur boðið til samverustundar í skólanum á morgun vegna slyssins en þrír piltanna eru nemendur við skólann.